Ósammála Svandísi: Ætlar að leggja frumvörpin fram

Guðrún Hafsteinsdóttir og Svandís Svavarsdóttir.
Guðrún Hafsteinsdóttir og Svandís Svavarsdóttir. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/Karítas

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra kveðst vera ósammála Svandísi Svavarsdóttur innviðaráðherra sem sagði í nýlegu viðtali að nægar breytingar hefðu verið gerðar á útlendingalögunum.

Guðrún boðaði áframhaldandi breytingar á lögunum í þingmálskrá ríkisstjórnarinnar. Svandís sagði í Samtalinu á Vísi og Stöð 2 í gær að útlendingamálin væru mjög erfið og að hún teldi ekki að frumvörp um frekari breytingar á útlendingalögunum ættu erindi inn á þingið. Jafnframt sagði hún að Vinstri grænum hugnaðist ekki lokað búsetuúrræði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Slíkt væri ekki á stefnuskrá flokksins.

Séríslenskar reglur geta ekki gengið

„Þar erum við innviðaráðherra held ég ósammála. Ég væri ekki með þessi mál á þingmálaskrá ef ég teldi að það væri ekki nauðsyn fyrir þeim breytingum. Ég væri heldur ekki með þessi mál á þingmálaskrá ef þau ættu ekki erindi við þingið. Ég tel einmitt að þau eigi það,“ segir Guðrún, spurð út í ummæli Svandísar að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.

Alþingi.
Alþingi. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég hef lagt á það gríðarlega mikla áherslu frá því ég kom inn í þetta embætti dómsmálaráðherra að við samræmum löggjöf okkar við löggjöf nágrannaríkjanna, sérstaklega Norðurlandanna, sem og annarra ríkja Evrópu. Við höfum verið með í löggjöfinni okkar séríslenskar málsmeðferðarreglur sem ég tel að geti ekki gengið. Ég hef lagt á það mikla áherslu, ég gerði það í þeim lagabreytingum sem voru samþykktar í júní, að við fellum á brott úr íslenskri löggjöf séríslenskar málsmeðferðarreglur í þessum málaflokki,“ bætir Guðrún við.

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. mbl.is/Karítas

„Þá er ég algjörlega ósammála“

Hún segir aðalbreytinguna sem hún leggi til vera heimild til að þess að afturkalla vernd hjá einstaklingi sem hefur hlotið vernd í íslensku samfélagi en gerist sekur um alvarlegan glæp þar. „Ef Vinstri græn telja að þetta ákvæði eigi alls ekki að vera í útlendingalögum þá verð ég að segja ég er algjörlega ósammála því.“

Rúmur mánuður er liðinn síðan Guðrún sagði ríkisstjórnina hafa sammælst í febrúar um heildarsýn í útlendingamálum þegar hún var spurð út í ummæli Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að breytingar á útlendingalöggjöf væru ekki forgangsatriði. Vildi hún ekki meina að óeining ríkti innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál. 

Spurð að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun hvort hún myndi leggja frumvörpin fram þrátt fyrir að VG væru ósammála svarar hún: „Eins og ég sagði, ég er með þetta á þingmálaskrá minni og ég hef fullan hug á að leggja mín frumvörp fram.“

Brottfararúrræði „miklu mannúðlegra“

Varðandi svokallað brottfararúrræði segir hún það löngu vera tímabært í íslensku samfélagi, sérstaklega í ljósi Schengen-samstarfsins. Þar sé Ísland eina ríkið sem ekki hafi uppfyllt slíkt úrræði. Í rauninni sé um innleiðingarfrumvarp að ræða og með því séu Íslendingar að uppfylla skyldu sína í þessum efnum í tengslum við Schengen.

„Ég vil líka minna á að ég tel að að þetta úrræði sé miklu mannúðlegra og miklu betra fyrir þá einstaklinga sem þarna þurfa að dvelja heldur en þau úrræði sem við erum að nota í dag,“ segir ráðherra og bætir við: „Gæsluvarðhald í mesta öryggisfangelsi landsins á Hólmsheiði fyrir fólk sem hefur ekki brotið lög á Íslandi, fyrir fólk sem hefur ekki annað sér til saka unnið nema að fá synjun um vernd á Íslandi. Það er miklu mannúðlegra að þeir einstaklingar dvelji í brottfararbúðum í nánu sambandi við íslensk stjórnvöld þar sem þeir geta notið aðstoðar við að tryggja það að brottför þeirra af landinu sé góð.“

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eyþór

Er að vinna fyrir íslenska þjóð

Ef VG myndi hóta því að sprengja ríkisstjórnina ef þau eru óánægð með það sem þú ert að leggja til, myndirðu samt leggja þessi frumvörp fram?

„Ég hef engan hug á öðru en að leggja þessi frumvörp fram, þess vegna eru þau á þingmálaskrá. Ég hefði ekki sett þau á þingmannaskrá ef ég ætlaði mér ekki að leggja þau fram. Það er mjög skýrt í mínum huga. Ég vil árétta það að ég er bara að vinna hér fyrir íslenska þjóð. Mér ber sem dómsmálaráðherra að tryggja hér almannareglu og öryggi í landinu og ég tel að þessar breytingar sem ég er hér að leggja til séu nauðsynlegar í þá veruna,“ svarar Guðrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka