Laufskálarétt í Hjaltadal, stærsta stóðrétt landsins, fór fram í dag í Skagafirði og hundruð manns tóku þátt.
Bergur Gunnarsson réttarstjóri segir daginn hafa gengið vel.
„Þetta gekk prýðilega vel, veðrið frábært og ljómandi stemning yfir þessu. Allt gekk samkvæmt áætlun,“ segir hann í samtali við mbl.is.
Hann segir að hundruð manns hafi farið í Kolbeinsdal til þess að sækja hrossin en alls var rekið um 500 hross með folöldum.
Um kvöldið spilar svo hljómsveit á dansleik fyrir sveitunga og einnig er ball á Sauðárkróki fyrir ungu kynslóðina.