Vill hjálpa fólki í álíka stöðu á fætur

Sævar hefur barist við kerfið í átta ár en er …
Sævar hefur barist við kerfið í átta ár en er loks á batavegi. Ljósmynd/Logi Unnarson Jónsson

Sævar Daníel Kolandavelu, sem fyrr í mánuðinum gekkst undir flókna hryggjarskurðaðgerð á Anadolu Johns Hopkins-spítalanum í Istanbúl í Tyrklandi, eftir átta ára árangurslausa baráttu við íslenska heilbrigðiskerfið, segir bataferlið ganga mjög vel. 

Hann er enn að jafna sig en segir aðgerðina hafa verið tiltölulega lítið inngrip. Sævar slasaðist við æfingar árið 2016 en meiðsli hans eru rakin til stoðkerfisgalla.

Oft grófgerðari aðferðir 

„Ég finn ekki fyrir neinum skemmdum eða neinu slíku,“ segir hann. Hryggjarskurðlæknirinn, Halil Atmaca, og teymi hans framkvæmdi aðgerðina sem var sú fyrsta sinnar tegundar.

„Hann setti fína stálvírafestingu í mjöðmina sem heldur henni á réttum stað en oft eru notaðar grófgerðari aðferðir. Hann notar litla skurði, þræði og skrúfur.“ 

Ekki er vitað hversu margar aðgerðir verða gerðar á Sævari Daníel, sem reiknar þó með því að næst verði önnur stálvírafesting sett í spjaldliðina.

„Þá ættu mjöðmin og spjaldhryggurinn að vera komin á réttan stað og ég úr mestu neyðinni,“ segir Sævar sem útskýrir svo hvernig meiningin sé að grípa inn í með mjög litlum inngripum á marga staði og nota stofnfrumur, ígræðslur og hluti í svæðin til að koma þeim á réttan stað og halda föstum meðan fótum hans verði snúið.

Ný inngrip hönnuð í áföngum

„Þegar álagið er orðið rétt er hægt að endurstilla inngripið í bakinu. Þetta eru í raun allt inngrip þar sem hægt er að stífa og slaka spennuna á stálvírunum gegnum ferlið en þannig vonumst við til að mjaka mér skref fyrir skref til fullrar heilsu. Við erum í raun að hanna nýtt inngrip á hverjum stað í áföngum,“ segir hann. 

Sævar langar að koma á róttækum breytingum og gera það sem hann telur að kerfið ætti að vera að gera. Hann vill byggja upp samfélagsábyrgðarfyrirtæki, Kolandavelu, sem nota muni arð sinn eingöngu til að reisa eins marga einstaklinga og hægt er út úr efnahagslegri og stéttaskiptingalegri kúgun.

Ljósmynd/Logi Unnarsson Jónsson

Hann vill reka vísindalegt nýsköpunarstarf þar sem einblínt verði á vísindalega tæmandi greiningu sjúklinga og að klæðskerasníða lausnir þverfaglega og verkfræðilega fyrir hvern og einn. 

Hann segir einhvern meðbyr með verkefninu í samfélaginu. „Fólk vill bara heilbrigði og manneskjulega meðhöndlun. Þess vegna held ég að þetta hafi bara orðið óvart til og er orðið mikið stærra en ég ætlaði mér. Ég er í raun og veru ekki með neitt plan. Þetta er ekki eitthvað sem maður ætlaði sér að fara í með einhverja landvinninga í huga,“ segir Sævar.

Það er komið nóg 

Segist hann fá til sín endalaust af sögum frá fólki. „Allan daginn – alltaf. Þetta eru bara sorgarsögur út í eitt. Þetta er eins og í frönsku byltingunni, þá voru aðstæður almennings þannig að það sauð upp úr.

Ekki að það þurfi að sjóða upp úr, það er hægt að gera byltingar öðruvísi, en það er bara komið nóg. Það vita allir og það finnst öllum. Það er bara spurning hvað við ætlum að gera í staðinn.“ 

Ferlið hefur tekið átta ár og Sævar lýsir því sem eins konar samfélagsstúdíu fyrir sig að upplifa sem og fólkið í kringum hann.

Hann segir hugmyndina um Kolandavelu ekki snúast um sig. Það sé ekki um eitthvað stórt, draumkennt, fáránlegt eða útópískt að ræða heldur eðlilega hugmynd um að reyna að vinna hlutina á vingjarnlegri máta og reyna að stefna fram á við. 

Segir hann að hugsa eigi um gamla fólkið, aldraða og slasaða og að það sé ekkert svakalega flókið mál. „Það eru ekkert allir slasaðir eða gamlir eða með einhver vandamál.“ 

Sævar segir að reynt verði að leysa vandamálin með því að feta sig í gegnum þau þar til niðurstaða fáist. Ekki verði hætt ef ekkert úrræði er til staðar. Einkennin verði tekin niður og leitað í vísindin, skoðað hvað getur valdið þeim, kenningar settar fram og ef þær stemmi ekki verði leitað betur.

Tyrkneskir feðgar leituðu til Sævars og þeirra sérfræðinga sem hann …
Tyrkneskir feðgar leituðu til Sævars og þeirra sérfræðinga sem hann hefur verið í sambandi við á meðan Sævar var í Istanbúl. Drengurinn glímir við stoðkerfisgalla. Ljósmynd/Aðsend

Vill græða fólk en ekki peninga 

„Í stað þess að fólk mæti á bráðamóttöku þar sem einhver hugsar, „já það er nú bara 1 af hverjum 80 sem fær svona tegund af þessu svo það er kannski ekki sérstaklega líklegt,““ lýsir Sævar og bætir því við að þannig virki oft stofnanaverkferlar, sem svo geldist og verði að aðferð sem enginn spái í af hverju sé eins og hún er. 

Hann kveðst vilja gefa fólki undirstöður til að taka þátt í samfélaginu, breyta því og gera ríkulegra. „Kolandavelu vill græða fólk en ekki peninga,“ segir hann.

Sævar Daníel Kolandavelu var þjóðþekktur tónlistarmaður, rappari sem gekk undir …
Sævar Daníel Kolandavelu var þjóðþekktur tónlistarmaður, rappari sem gekk undir nafninu Poetrix. Myndin er tekin við það tilefni er hann sendi frá sér sína fyrstu plötu, Fyrir lengra komna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Trúir á kjark og þor 

Vörumerki Kolandavelu kallast Thugmonk og selur það vörur til að skapa ágóða svo fyrirtækið geti starfað og góðgerðarstarfið dafnað. 

Kolandavelu hefur hugmyndir um að hægt sé að vinna á þjáningarminni hátt fyrir mjög marga án mikilla átaka. Sú hugmynd er kannski of byltingarkennd til að fólk geti trúað á hana sem mannverur en það er hægt að fylgjast með og taka þátt í byltingunni á patreon.com/Thugmonk. 

Ég trúi alla vega á kjark og þor. Það er ekki eins og ég hafi neinu að tapa og af hverju þá ekki að reyna?“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert