„Er ég virkilega að deyja?“

Gríðarlegt álag var á heilbrigðisstarfsfólki í faraldrinum sem þurfti að …
Gríðarlegt álag var á heilbrigðisstarfsfólki í faraldrinum sem þurfti að vinna í hlífðarbúningi og með grímu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kórónuveiran er landsmönnum enn í fersku minni, enda aðeins rúm fjögur ár síðan hún hélt innreið sína til landsins.

28. febrúar 2020 markaði upphafið að veirunni hér á landi, en hún hafði þá áður farið sem eldur í sinu um heimsbyggðina.

Engan óraði þá fyrir að næstu tvö árin yrðu undirlögð af veikindum, sóttkví, grímuskyldu, ferðatakmörkunum, samkomubönnum, heimavinnu og einmanaleika fjölmargra.

Fyrsta tilvikið í lok febrúar

Þegar fréttir fóru að berast af því í lok árs 2019 að dularfull veirusýking hefði komið upp í Kína grunaði ekki marga að hún yrði upphafið að heimsfaraldri. Í frétt frá 14. febrúar var grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Smithætta hér á landi lítil. Aðeins hálfum mánuði síðar birtist svo frétt um fyrsta smitið hérlendis.

Í greininni, sem bar fyrirsögnina: Kórónuveiran greind á Íslandi, stendur: „Hættustigi var lýst yfir í gær og víðtækar varúðarráðstafanir eru gerðar í kjölfar þess að fyrsti maðurinn á Íslandi hefur verið greindur með kórónuveiruna. Þar á í hlut maður á fimmtugsaldri sem verið hafði á skíðum með fleirum á Ítalíu, en þar í landi hefur veiran náð að breiða úr sér.“

Ekki þótti þó tilefni til að setja á ferðabann á þeim tímapunkti.

Margir muna eftir því að hafa þurft að hanga heima …
Margir muna eftir því að hafa þurft að hanga heima í sóttkv eða einangrun. mbl.is/Ásdís

Næstu vikur og mánuði birtust reglulega fréttir með tölum um smit, bæði hér heima og á heimsvísu, og sífellt fjölgaði tilfellum.

Landspítalinn stóð í ströngu og þríeykið fræga, Alma D. Möller landlæknir, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, hóf að halda fundi í beinni útsendingu til að skýra frá gangi mála. Strax í apríl náði veiran til allra landshluta en 2. apríl voru tilfellin orðin staðfest 1.220 og þúsundir í sóttkví.

Bæjarstjórinn í Bolungarvík, Jón Páll Hreinsson, hafði að vonum áhyggjur, sem og fleiri, en í viðtali við hann í byrjun apríl segir hann: „Veturinn hefur verið erfiður; snjóþyngsli, sjósókn erfið og stundum lítill afli og nú bætist kórónuveiran við. Nú hafa fyrstu tilfelli veikinda greinst hér og þá verðum við að treysta okkar góða heilbrigðiskerfi.“

Bjuggum til rakningarteymi

Næstu mánuði og ár var Morgunblaðið undirlagt af kórónuveirufréttum. Í Sunnudagsblaðinu á árinu 2020 voru ítarleg viðtöl við fagfólk og aðra sem kórónuveiran snerti sérstaklega. Í byrjun desember var viðtal við hjónin Rögnvald Ólafsson og Helgu Rósu Másdóttur sem stóðu í framlínunni í kórónuveirufaraldrinum, hann sem aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild, hún sem hjúkrunardeildarstjóri hjá bráðamóttöku í Fossvogi.

„Það var rosaleg vinna í upphafi því þetta var svo óþekkt. Þetta var kapphlaup að fá nýjar upplýsingar, teikna upp verklagið, búa til leiðbeiningar og breyta húsnæði. Þegar maður hugsar til baka sér maður að þetta var tryllt vinna. Manni leið eins og maður væri í maraþonhlaupi þar sem maður vissi ekki kílómetrafjöldann og maður hljóp í spretti,“ segir Helga Rósa.

Nóg var um að vera hjá Rögnvaldi í vinnunni.

„Hjá okkur var allt annað sett til hliðar og öll orkan fór í þetta. Við færðum samhæfingarstöðina upp á efri hæð í Skógarhlíð og hólfaskiptum rýminu. Svo bjuggum við til rakningarteymi. Ég er enn að vinna að covid-málum og hef verið að hlaupa í skarðið fyrir Víði og þarf því að sækja alla fundi. Ég þarf að vita hvað klukkan slær ef ég þarf að stíga inn,“ segir Rögnvaldur.

Eftirköstin koma í ljós

Yfirlæknir smitsjúkdómalækninga, Már Kristjánsson, var margoft fenginn í viðtöl, en strax um haustið var ljóst að eftirköst veirunnar gætu orðið mikil, enda upplifðu margir enn einkenni löngu eftir að hafa smitast. Ofsaþreyta var eitt helsta einkennið og hafa margir velt fyrir sér hvort fólk þrói með sér ME-sjúkdóminn í kjölfar covid.

„En það er einnig til fyrirbæri sem nefnist Post Viral Fatigue og má ekki rugla saman við ME. Þá er oft miðað við að einkennin vari allt að sex mánuðum eftir veirusýkinguna, en ef einkennin fara umfram þann tíma, þá uppfylla þau skilyrði á skilgreiningu ME,“ segir Már.

Morgunblaðið tók tali fólk sem virtist ekki ná sér af covid.

„Ég var í einangrun í 39 daga í mars og apríl,“ segir Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri Árborgar.

„Ég var svo lengi að útskrifast af því að ég var svo lengi með þurran hósta. Ég smitaðist 13. mars og veiktist kvöldið eftir,“ segir hann, en hann varð mjög veikur. Vel gekk að byggja upp þol fyrstu þrjár vikurnar. „Svo eftir þrjár vikur kemur þessi rosalega þreyta,“ segir Gísli.

„Ég fór varlega í að byggja mig upp og þessi þreytuköst urðu færri og styttri; allt niður í klukkutímalöng,“ segir Gísli og nefnir að hann hafi upplifað þreytuköst allt sumarið.

„Ég fór í tjaldútilegu í sumar og fékk þá þreytukast og var þreyttur í þrjá daga eftir hlaup. Það var mikið svekkelsi því ég hélt ég væri laus við þetta,“ segir hann og nefnir að þá hafi ekki verið annar kostur en að sætta sig við stöðuna. Annað einkenni sem hann finnur fyrir er svefntruflanir.

„Ég á erfitt með að halda svefni yfir nóttina. Kona mín nefndi nýlega að það gæti kannski tengst covid, sem ég hafði ekki hugsað út í. Og þá hefur það auðvitað mikil áhrif á orkuna ef maður nær ekki að sofa.“

Langur listi af einkennum

Ása Ólafsdóttir, starfsmaður hjá CCP, er ein af þeim sem upplifðu eftirköstin mjög lengi. Líklega hefur hún verið ein af fyrstu Íslendingum til að smitast.

„Ég kom frá París 18. febrúar og nokkrum dögum síðar, 24. febrúar, byrjar að líða yfir mig í tíma og ótíma,“ segir Ása, sem endaði í aðgerð þar sem í hana var græddur gangráður vegna mikilla hjartsláttartruflana.

„Svo fer að líða á mars og mér líður áfram illa en á þeim tíma unnum við öll heima. Ég sat heima og reyndi að vinna en var alveg svakalega slöpp. Ég er með langan lista af einkennum,“ segir Ása.

„Ég get sagt þér, mér hefur aldrei liðið jafn illa eins á þessum tíma. Ég man eftir þremur skiptum sem mér leið svo illa að ég hugsaði: „Jæja, er komið að því, er ég virkilega að deyja?““

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert