„Nú er kominn hiti í mannskapinn“

Katrín Jakobsdóttir ræðir við Dagnýju Hróbjartsdóttur, sem situr í stjórn …
Katrín Jakobsdóttir ræðir við Dagnýju Hróbjartsdóttur, sem situr í stjórn Heimilis og skóla. Björn Brynjúlfur situr til hægri. mbl.is/Karítas

Mikillar óánægju gætti á menntaþingi þegar Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, færði þar rök fyrir innleiðingu samræmds námsmats við lok grunnskólagöngu barna.

Tók hann þátt í pallborði ásamt Magnúsi Þór Jónssyni, formanni Kennarasambandsins, og fleirum.

Björn Brynjúlfur benti á að yfirskrift pallborðsins væri staða menntakerfisins, sem ráðherrann Ásmundur Einar Daðason hefði farið yfir þar á undan.

„Hún er á þeim stað sem við köllum neyðarástand,“ fullyrti Björn Brynjúlfur.

Með því versta sem gengur og gerist

„Ég held að við þurfum svolítið að horfast í augu við það. Af því að Ásmundur sagði að þróunin væri sambærileg á öðrum Norðurlöndum,“ sagði hann.

„Hún er það ekki. Það er miklu verri staða hér. Lesskilningur og stærðfræðifærni nemenda á Íslandi er með því versta sem gengur og gerist.

Við erum með eitt dýrasta kerfi í heimi í grunnskólanum, með næstlakasta árangur í Evrópu. Þetta er að okkar mati óásættanlegt og við höfum verið að tjá okkur um námsmatið út af þessu.

Að okkar mati er námsmatið einn mikilvægasti hlutinn vegna þess að það er grundvallarforsenda þess að við getum mælt og bætt þennan árangur.“

Ásmundur Einar Daðason ráðherra á menntaþingi í dag.
Ásmundur Einar Daðason ráðherra á menntaþingi í dag. mbl.is/Karítas

Vitum stöðuna aðeins vegna PISA

Benti hann á að það væri einmitt vegna námsmats á borð við PISA-prófin sem það væri vitneskja um þessa slæmu stöðu grunnskólakerfisins hér á landi.

Þau væru jú samræmd próf, nema á milli landa.

Tók hann fram að samræmd próf hefði á sama tíma skort hér á landi undanfarin ár, frá því þau voru afnumin.

„Og síðan kynntu stjórnvöld ný áform í sumar, þar sem á að breyta þessu námsmati og við á að taka svokallaður námsferill. Og við bara gerðum athugasemdir við ýmis atriði í þessum ferli.“

Hnífurinn staðið í kúnni

Í nýju frumvarpi skólayfirvalda felist þó mikil framför frá því sem kynnt hafði verið, til dæmis hvað gagnsæi varðar.

„Vegna þess að hnífurinn hefur svolítið staðið í kúnni í haust og í sumar, varðandi það að við viljum að árangur af skólastarfi sé birtur opinberlega. Við viljum að allir hafi aðgang að niðurstöðum úr skólastarfi.

Það er að segja, við viljum að hver sem er eigi að geta séð hver er færni nemenda þegar þeir ljúka til dæmis grunnskólagöngu. Þetta er á skjön við það sem starfshópur stjórnvalda ályktaði í aðdraganda þessa námsmatsfrumvarps. Þannig að þarna er breyting til hins betra, þetta var í rauninni lagfært núna,“ sagði hann. 

„Nú á matsferillinn að vera skyldubundinn í 4., 6. og 9. bekk. Hann á að vera skyldubundinn í íslensku og stærðfræði, og frumvarpinu var breytt þannig að nú á deila og miðla þessum upplýsingum opinberlega. Þetta eru framfarir,“ bætti hann við.

„En það er samt ennþá alvarlegur annmarki í frumvarpsdrögunum eins og þau eru núna. Sem er að það er ekkert samræmt námsmat við lok grunnskólagöngu.“

Frá menntaþinginu sem haldið er í dag.
Frá menntaþinginu sem haldið er í dag. mbl.is/Karítas

Tvenns konar vandamál

Þetta búi til tvenns konar vandamál.

„Í fyrsta lagi njóta nemendur ekki jafnræðis þegar þeir sækja um pláss í framhaldsskóla, vegna þess að framhaldsskóli tekur í dag inn nemendur á grundvelli skólaeinkunna.“

Benti hann á stjórnvöld hefðu sjálf komist að þeirri niðurstöðu að skólaeinkunnir væru ósambærilegar.

„Það er að segja, 35% nemenda á Íslandi eru með of háa eða of lága skólaeinkunn út úr grunnskóla miðað við raunfærni. Þetta er niðurstaða rannsóknar Menntamálastofnunar á því að bera saman samræmdu prófin og skólaeinkunnir.“

Önnur rannsókn stofnunarinnar hefði sýnt fram á bólgu einkunna, sem var meðal annars ástæða þess að skipt var yfir í einkunnagjöf í bókstöfum.

Skortir samræmt mat við lok grunnskólans

„En það hefur samt ekki tekist að stemma stigu við henni. Þannig að ég skil ekki enn þá af hverju stjórnvöld áforma að láta skólaeinkunnir gilda sem lokamat grunnskóla. Þannig að við lögðum til núna í nýrri umsögn að þetta verði lagfært og að lokamat grunnskóla verði líka samræmt.

Þannig að við séum þá með einhvern samræmdan mælikvarða á færni barna þegar þau ljúka grunnskólagöngu. Þetta sama mat er þá hægt að nota bæði fyrir inntöku í framhaldsskóla en líka, sem er mikilvægast kannski, er að tryggja og bæta gæði skólastarfs.

Ef sumir skólar standa verr en aðrir eða betur en aðrir, þá sjáum við það í tölunum, getum lært af þeim sem gera vel og hjálpa þeim sem standa síður vel,“ sagði Björn Brynjúlfur.

„Þarna erum við ekki sammála,“ svaraði Magnús Þór.

Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, …
Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambandsins og Valdimar Víðisson, skólastjóri Öldutúnsskóla, sem heldur hér á hljóðnemanum. mbl.is/Karítas

Allir steyptir í sama mót

Magnús Þór hélt áfram:

„Samræmt lokamat í grunnskóla verður að vera byggt á námskrá. Ef við ætlum að vera með samræmt lokamat í grunnskóla þá ætlum við að fara að steypa alla inn í sama mót. Við sem vorum að kenna hérna á síðustu öld vitum af hverju því var breytt. Það var vegna þess að það einmitt skilaði ekki þeim upplýsingum frá okkur sem skiptu máli fyrir framhaldsskóla.“

Sagði hann samræmt mat á einni útkomu ekki fela í sér mat á skólastarfi fyrir alla. Breyta þurfi námskrá aftur í fyrra form, ef vilji sé fyrir því að taka aftur upp samræmd próf.

„Prófið eitt og sér breytir engu.“

Við þetta hlaut Magnús mikið lófaklapp úr sal. Það hafði Björn Brynjúlfur ekki uppskorið við sitt erindi heldur frekar töluverðan klið í salnum.

Námsmatið eigi ekki að hjálpa framhaldsskólunum

Elsa Eiríksdóttir, prófessor og deildarforseti faggreinakennslu menntavísindasviðs Háskóla Íslands, tók þá til máls og sagði það mikilvægt að vera með samræmt námsmat.

„Af því við verðum að vita eitthvað um skólakerfið. Við verðum að vita hverju það er að skila. Ég er alveg sammála því. En hvað við erum að gera og til hvers, það er stóra spurningin. Og ég er ekki sammála því að þetta eigi að vera undir lok skólastarfs. Þetta á að vera einhvers staðar þar sem við getum brugðist við. Þar sem skólar geta brugðist við, kerfið getur brugðist við,“ sagði hún.

„Við vitum úr gömlu samræmdu prófunum að nemendur á landsbyggðinni stóðu verr að vígi, til dæmis í stærðfræði, heldur en á höfuðborgarsvæðinu. Svoleiðis upplýsingar gefa okkur tækifæri til að ákveða stuðning fyrir þá skóla. Hvernig við eigum að bregðast við þessu.

Ég er samt alveg ósammála því að þetta eigi að vera einhver aðstoð fyrir framhaldsskóla til að velja sér nemendur. Mér finnst það ekki vera hlutverk þessa námsmats.

Við eigum að hugsa, til hvers erum við að þessu, hvernig getum við notað þessar upplýsingar til að þjóna nemendum? Það er fyrst og fremst spurningin sem við eigum að vinna með,” sagði Elsa og hlaut einnig lófaklapp um leið.

Elsa Eiríksdóttir prófessor og deildarforseti við menntavísindasvið.
Elsa Eiríksdóttir prófessor og deildarforseti við menntavísindasvið. mbl.is/Karítas

Þurfi ekki að vera alfa og ómega alls

Björn Brynjúlfur svaraði:

„Við erum ekki að segja að þetta eigi að vera alfa og ómega alls, eða að þetta eigi að vera eitt próf eða hvað það er. Við erum bara fylgjandi því að námsmat eigi að vera nútímalegt, og gert eftir því sem best er gert, og okkur finnst margt mjög metnaðarfullt og flott í nýjum matsferli,“ sagði hann.

„En hann er tvíþættur. Hann er annars vegar valkvæður, það er að segja það er samræmt námsmat sem skólarnir geta sjálfir nýtt sér, til að vera með gagnvirka bætingu á sínum árgöngum í gegnum alla skólagönguna.

En síðan er líka skyldubundið námsmat. Það á núna að fara fram í 4., 6. og 9. bekk í íslensku og stærðfræði.“

„Þetta nær ekki nokkurri átt“

„Ef við færum eftir þessu sem Magnús er að segja þá ættum við væntanlega að fella þetta niður líka, eða hætta í PISA. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það verður að vera samræmd mæling á grunnfærni. Það er enginn að tala um að þetta þurfi að vera allt, en við verðum að hafa þessa mælikvarða.“

Framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs hafði ekki sleppt orðinu áður en mikill kurr fór um salinn. Raunar hafði oft mátt heyra hvernig salurinn brást illa við á meðan hann talaði.

„Nú er kominn hiti í mannskapinn,“ sagði Katrín Jakobsdóttir fundarstjóri.

„Magnús hristir hér höfuðið,“ bætti hún við, og færði svo talið að öðru.

Fylgjast má með menntaþingi hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert