Úttekt endurskoðunarfyrirtækisins KPMG á greiðslum til Jóns Jónssonar, fyrrverandi nefndarmanns í hreppsnefnd Strandabyggðar, er lokið og verða niðurstöðurnar birtar á vefsíðu sveitarfélagsins í þessari viku.
Þetta segir Salbjörg Engilbertsdóttir, skrifstofustjóri Strandabyggðar, aðspurð.
Jón fékk fyrr á árinu samþykkta kröfu sína um að rannsókn yrði gerð á þungum sökum sem á hann voru bornar af starfsmönnum sveitarfélagsins. Var hann meðal annars sakaður um fjárdrátt.
Úttekt KPMG átti að ljúka í síðasta lagi í dag og að sögn Salbjargar barst hún í morgun.
Hún segir skýrsluna komna í skoðun bæði hjá Jóni og sveitarstjórn Strandabyggðar. Verður hún birt í síðasta lagi á miðvikudaginn. Einnig verður skýrslan lögð fram til kynningar á sveitarstjórnarfundi á þriðjudaginn í næstu viku.
Aðspurð kveðst Salbjörg ekki geta tjáð sig um niðurstöðu skýrslunnar.
Jón, sem er þjóðfræðingur og ferðaþjónustubóndi á Kirkjubóli á Hólmavík, sagði í sumar að lykilstarfsmenn sveitarfélagins hefðu sakað sig um sjálftöku á fjármunum úr sveitarsjóði að upphæð 61.423.961 kr. þegar hann sat í hreppsnefnd á síðasta kjörtímabili sveitarfélagsins.