„Eigum mikið erindi í íslenskri pólitík“

Svandís Svavarsdóttir.
Svandís Svavarsdóttir. mbl.is/Karítas

Svandís Svavarsdóttir, sem að óbreyttu tekur við formennsku hjá Vinstri grænum á landsfundi VG um næstu helgi, segir að mikil stemning og eftirvænting sé fyrir landsfundinum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra og núverandi formaður VG, greindi frá því í síðustu viku að hann sæktist ekki eftir endurkjöri og í kjölfarið upplýsti Svandís að hún ætlaði að bjóða sig fram til formanns. Hún er ein í kjöri til formanns en Guðmundur Ingi og Jódís Skúladóttir hafa tilkynnt um framboð í varaformannssætið.

„Fólk er dálítið að hugsa hvernig það ætlar að hafa næsta kafla í lífi VG. Ég held að við séum öll meðvituð að það eru sóknarfæri í stöðunni,“ segir Svandís í samtali við mbl.is.

Hún segist sannfærð um að VG geti spyrnt sér frá botninum en í nýjustu skoðanakönnun Maskínu mældist VG með 3,7% fylgi sem myndi ekki duga flokknum til að ná manni inn á þing.

„Leiðin er bara upp og áfram og það eru öll efni til þess að við fáum byr í seglin. Við eigum mikið erindi í íslenskri pólitík og í almennum stjórnmálum nútímans er þörf fyrir rödd sem leggur áherslu á félagshyggju, kvenfrelsi og náttúruvernd. Nú veitir ekki af rödd sem talar um frið,“ segir Svandís.

Að óbreyttu verður tillaga um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi VG, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lögð fram á landsfundinum. Spurð út í þá tillögu segir Svandís:

Hissa ef ekki hefði komið fram tillaga af þessu tagi

„Það er viðvangsefni landsfundarins að fjalla um þá tillögu eins og aðrar ályktunartillögur sem við erum með. Ég hefði nú verið hissa miðað við það hvernig VG er samansett ef ekki hefði komið fram tillaga af þessu tagi. Um leið verðum við bara að fjalla um hana og afgreiða hana,“ segir Svandís.

Hún segir að forysta VG geri ráð fyrir því að það verði sérstakur dagskrárliður á landsfundinum þar sem fjallað verður um kost og löst á samstarfinu og flokkurinn verði að hafa pólitískt þrek í að tala um þau mál á opinskáan hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert