Þrettán hafa látið lífið í umferðarslysum það sem af er ári en kona á fertugsaldri lést á Sæbraut aðfaranótt sunnudags.
Ekki hafa fleiri látist í umferðarslysum á einu ári í sjö ár en árið 2015 létust fimmtán.
„Þetta er bara alveg hræðilegt og í hvert skipti sem kemur frétt af banaslysi þá finnur maður til,“ segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra við mbl.is.
Hún segir að þetta séu áföll í umferðinni sem verða ekki aftur tekin.
„Ég veit að við þurfum að leggja enn þá meiri áherslu á að koma í veg fyrir slys hvort sem það eru alvarleg slys eða banaslys. Það hefur verið áherslumál í samgöngukerfinu um langt árabil en það er alveg ljóst að þessi háa tíðni á yfirstandandi ári gefur tilefni til þess að við setjumst sérstaklega yfir þessi mál,“ segir Svandís.