„Er byrjað að skila árangri“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandins, fagnar ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans sem í morgun tilkynnti um 0,25 prósentustiga lækkun stýrivaxta.

Þetta er í fyrsta sinn síðan í nóvember 2020 sem Seðlabankinn lækkar vextina, sem eru nú 9% en þeir hafa verið 9,25% frá því í ágúst á síðasta ári.

„Ég er afskaplega ánægður að þetta verkefni sem við stefndum að með kjarasamningum okkar er byrjað að skila árangri,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

Hann segist hafa viljað sjá lækkun upp á 0,5 prósentustig en segir að Seðlabankinn sé engu að síður að sýna að hann sé að hefja stýrivaxtalækkunarferli.

„Það er það sem við stefndum að í kjarasamningunum með samkomulagi við sveitarfélögin og ríkið ásamt verslun og þjónustu. Nú þurfa allir að róa í sömu átt og halda áfram að ná niður verðbólgunni og vaxtastiginu,“ segir Vilhjálmur.

Verður að koma vöxtum hratt niður

Hann segir að það sé ekkert mikilvægara fyrir íslenskt samfélag heldur en að koma vöxtum niður hratt og vel þannig að hægt verði að auka ráðstöfunartekjur íslenskra heimila og fyrirtækja.

„Þótt lækkunin sé aðeins 0,25 prósentustig þá vil ég samt segja að íslensk heimili skulda 3.200 milljarða eða 73 prósent af vergri landsframleiðslu og þá er þessi lækkun að skila tæpum milljarði í lækkun vaxta til heimila þegar hún verður búin að skila sér að fullu til þeirra.“

Vilhjálmur bindur vonir við að Seðlabankinn stígi stærra skref í næstu vaxtaákvörðun sinni sem verður í nóvember.

„Ég á von á því að verðbólgan haldi áfram að lækka enn frekar á næstu mánuðum og þar með vextir. Það er stærsta hagsmunarmál fyrir skuldsett heimili. Ég bind því vonir við að Seðlabankinn komi með myndarlega vaxtalækkun í næsta mánuði,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert