„Mjór er alltaf mikils vísir“

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
Finnbjörn A. Hermannsson, forseti ASÍ og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Samsett mynd

„Þetta eru virkilega ánægjuleg tíðindi,“ segir Finnbjörn Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, um þá ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans að lækka stýrivexti bankans um 0,25 prósentustig.

Finnbjörn segist fagna því að Seðlabankinn sé lagður af stað í stýrivaxtarlækkun en tæp fjögur ár eru liðin frá því stýrivextir voru síðast lækkaðir. Þeir eru nú 9 prósent en höfðu verið í 9,25 prósentum frá því í ágúst í fyrra.

„Við mátum það svo að Seðlabankinn ætti ekki neinna annarra kosta völ en að lækka vextina. Nú er vaxtalækkunarferlið hafið og mjór er alltaf mikils vísir,“ segir Finnbjörn við mbl.is.

Hann segist hafa viljað sjá enn frekari lækkun stýrivaxtanna en metur það svo að Seðlabankinn vilji byrja rólega og geti þá tekið stærri skref næst.

„Ég fagna því að þetta skref hafi þó verið tekið,“ segir Finnbjörn en í viðtali við blaðamann í síðustu viku sagði hann allar forsendur vera fyrir því að stýrivextir yrðu lækkaðir og að peningastefnunefndin þyrfti að koma með ný rök sem myndu réttlæta að stýrivextirnir yrðu óbreyttir.

Finnbjörn segir að spár ASÍ miði að því að verðbólgan haldi áfram að síga niður og ef það gangi eftir þá muni Seðlabankinn fylgja því eftir með frekari stýrivaxtarlækkun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert