Sló einnig út á stærstum hluta Vestfjarða

„Það eru miklu minni líkur að við hefðum fundið fyrir …
„Það eru miklu minni líkur að við hefðum fundið fyrir þessu hefði verið góð virkjun hérna innan svæðisins,“ segir orkubússtjóri Vestfjarða en rafmagn komst ekki í Vesturlínu í dag, sem sér landshlutanum fyrir rafmagni. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Rafmagnsleysið mikla sem hefur leikið landsmenn grátt í dag teygði anga sína til Vestfjarða, þar sem straumur komst ekki í Vesturlínu sem tengir landshlutann við dreifikerfi Landsnets og Rariks. Því sló rafmagn þar út í skamma stund.

„Það var ekki langtímarafmagnsleysi hjá okkur,“ segir Elías Jónatansson orkubússtjóri í samtali við mbl.is en varaaflsstöð Landsnets sem keyrir á dísilolíu fór sjálfkrafa í gang á innan við mínútu.

Elías kveðst ekki geta sett nákvæma tölu á hversu margir hafi fundið fyrir rafmagnsleysinu á Vestfjörðum en þar búa rúmlega 7 þúsund manns. Þá áætlar Rarik að ríflega 15.500 sinna viðskiptavina hafi orðið fyrir áhrifum rafmagnsleysis og truflana fyrr í dag.

Mjólkárvirkjun sá sunnanverðum fjörðunum fyrir rafmagni

Orkubú Vestfjarða rekur dreifikerfi þar og Elías gerir ráð fyrir að allir Vestfirðir hafi orðið rafmagnslausir í skamma stund að undanskildum Patreksfirði, Tálknafirði og stöðum á sunnanverðum Vestfjörðunum.

Elías segir það vera vegna þess að Mjólkárvirkjun hafi séð sunnanverðum Vestfjörðum fyrir rafmagni en sú virkjun sé alls ekki nógu öflug til að sjá öllum Vestfjörðum fyrir rafmagni.

„Það eru miklu minni líkur á að við hefðum fundið fyrir þessu hefði verið góð virkjun hérna innan svæðisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert