Andlát: Helga Haraldsdóttir

Helga Haraldsdóttir, íþróttakennari og sunddrottning, lést síðastliðinn laugardag, 28. september, 87 ára að aldri.

Helga fæddist í Reykjavík 7. júlí 1937. Foreldrar hennar voru Haraldur Jensson, lögregluþjónn og bifreiðarstjóri Læknavaktar í Reykjavík, og Björg Jónsdóttir húsmóðir. Helga var elst sjö systkina, hin yngri voru Hólmfríður, Jón og Hörður, og Elísabet, Ragnheiður og Valgerður samfeðra.

Helga útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands, Íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni, lauk framhaldsnámi við Íþróttaháskólann í Osló í Noregi og myndmenntakennaranámi frá Kennaraháskóla Íslands. Hún sótti einnig fjölmörg námskeið í myndlist.

Helga starfaði mestalla sína starfsævi við sundkennslu barna í Langholtsskóla en einnig kenndi hún í Kópavogi og á sumrin á landsbyggðinni því ekki voru upphitaðar laugar víða yfir vetrarmánuðina. Árið 1990 venti hún kvæði sínu í kross og hóf störf hjá Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands við endurhæfingu skjólstæðinga. Þar naut hún sín vel og lauk sínum starfsferli þar rúmlega sjötug.

Sundíþróttin átti hug hennar allan frá æsku og hóf Helga að æfa og keppa fyrir KR í nýrri Sundhöll Reykjavíkur sem þá var komin. Hún varð margfaldur Íslandsmeistari í sínum greinum, setti 38 Íslandsmet og var einnig aðalþjálfari sunddeildar KR um tíma. Hún var einnig mikilvirk í sjósundi og synti m.a. Viðeyjarsund, Helgusund í Hvalfirði og fjölmörg önnur óformleg sjósund bæði ein og með sundfélögum þess tíma. Helga var einnig virkur skátafélagi og eyddi flestum sumrum við Úlfljótsvatn í æsku.

Helga dró upp málningarpenslana sem legið höfðu í dvala um tíma, byrjaði að mála og gekk í Myndlistarfélag Árnesinga. Hún tók þátt í fjölmörgum samsýningum en setti einnig upp einkasýningar.

Eftirlifandi eiginmaður Helgu er Egill Gústafsson, f. 13. október 1940. Börn Helgu frá fyrra hjónabandi eru Björg Snjólfsdóttir heilbrigðisgagnafræðingur og Haraldur Snjólfsson, rafvirki og hestamaður. Barnabörnin eru sex og barnabarnabörnin fimm.

Útför Helgu verður frá Hveragerðiskirkju 15. október kl. 14.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert