Síminn ósammála niðurstöðu Fjarskiptastofu

Síminn telur viðbrögð sín þegar að atviksins varð vart hafa …
Síminn telur viðbrögð sín þegar að atviksins varð vart hafa verið mjög góð og samkvæmt góðum venjum enda hafi innri ferlar félagsins verið virkjaðir. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Forsvarsmenn Símans eru ósammála niðurstöðu Fjarskiptastofu um að öryggisskipulag félagsins hafi verið ábótavant vegna öryggisatviks sem varð í október fyrir þremur árum. 

Fjarskiptastofa birti fyrr í dag ákvörðun sína vegna atviks sem varð hjá Símanum þann 12. október 2021.

Þar kom fram að Síminn hefði brotið gegn ákvæðum þágild­andi fjar­skipta­laga um ör­yggi fjar­skipta þegar ör­yggis­at­vikið kom upp sem hafði það í för með sér að út­fall og trufl­un varð á þjón­ustu til allt að 150.000 not­enda Sím­ans í yfir 30 mín­út­ur. 

Mannleg mistök við uppfærsluna

„Atvikið sem hafði áhrif á farsímakerfi Símans í alls 32 mínútur varð vart á meðan verið var að uppfæra sk. farsímakjarna. Síminn rekur tvo aðskilda farsímakjarna sem eru tæknilega flókin og stór kerfi, sem eru landfræðilega aðskildir og tryggja uppitíma og hnökralausa virkni farsímakerfis Símans, ef annar þarfnast uppfærslu eða bilar tekur hinn við,“ segir í tilkynningu frá Símanum.

Mannleg mistök við uppfærsluna þann 12. október 2021 ollu því að breytingar á þeim farsímakjarna sem verið var að vinna við og var óvirkur, fóru yfir í þann farsímakjarna sem var að þjónusta viðskiptavini Símans sem olli því að þeir upplifðu sambandsleysi. Greining á atvikinu gekk hratt fyrir sig og samband var komið fljótlega á aftur, og eftir á var farið vandlega yfir hvað fór úrskeiðis og úrbætur lagðar til eins og fylgir góðri öryggismenningu sem er rík innan Símans, að því er félagið segir enn fremur í tilkynningunni. 

Síminn telur viðbrögð sín hafa verið góð

„Í ákvörðun Fjarskiptastofu metur stofnunin svo að öryggisskipulag Símans hafi verið ábótavant, þessu er félagið ósammála.

Síminn telur viðbrögð sín þegar að atviksins varð vart hafa verið mjög góð og skv. góðum venjum enda voru innri ferlar félagsins virkjaðir. Allur undirbúningur vegna þessarar vinnu sem því miður fór úrskeiðis var að sama skapi einnig skv. bestu venjum. Ekkert áhættumat eða skipulagslegar- og tæknilegar ráðstafanir sem eiga að lágmarka líkur á atvikum geta að fullu komið í veg fyrir mistök, hvað þá mannleg mistök, enda eðli mannlegra mistaka að þau eru ófyrirsjáanleg og með öllu óvænt,“ segir einnig í tilkynningu Símans. 

Uppitími farsímakerfisins til fyrirmyndar

Þá er bent á, að hundruð breytinga og uppfærslna séu gerðar í kerfum Símans á ári hverju sem hafi engin áhrif á viðskiptavini Símans eða uppitíma kerfa félagsins „þökk sé góðu og traustu öryggisskipulagi sem er rekið af reynslumiklum sérfræðingum Símans. Uppitími farsímakerfis Símans er til fyrirmyndar á heimsvísu og var t.d. árið 2021 99,994%, að meðtöldu þessu atviki sem varð 12. október 2021.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka