Vændið var ekki það versta

Katrín og kærastinn Ryan Johnson sem leggur stund á doktorsnám …
Katrín og kærastinn Ryan Johnson sem leggur stund á doktorsnám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hefði blaðamaður ekki neyðst til að sníða myndina til fyrir myndrýmið mætti sjá að Ryan er í svartri peysu með bleikum Bónusgrís á framhlið. Hróður lands og þjóðar fer víða. Ljósmynd/Aðsend

„Líf mitt var rosalega erfitt áður en ég fór til Íslands,“ segir Katrín Níelsdóttir, bókavörður íslenska bókasafnsins við hinn fornfræga Manitoba-háskóla í Winnipeg í Kanada, á mjög frambærilegri íslensku.

Ætti kannski engan að undra með þetta nafn, nema hvað að Katrín er alls ekki íslensk heldur rammkanadísk. Upphaflegt nafn hennar var Ko-Leen Taralynn Mary Della Edwards Stranden og eðlilegt að einhverjir lesendur grípi andann á lofti við romsuna.

Við höldum okkur þó bara við Katrínu enda er það lögformlegt nafn hennar í dag, auk þess sem hún er íslenskur ríkisborgari, bjó á Íslandi og var þar í hjónabandi. Því lauk með skilnaði eins og stundum gengur og gerist, en bókavörðurinn, sem hefur hina ágætustu þekkingu á íslenskum fornritum, kveðst hafa átt mjög góðan tíma á Íslandi og kynnst þar einstöku fólki.

„Mamma var vændiskona“

Katrín er bókasafnsfræðingur með meistaragráðu í upplýsingafræði frá Háskóla Íslands og ræddi raunar nýlega við Morgunblaðið, Steinþór Guðbjartsson blaðamann, undir lok maímánaðar. Sagði þar frá starfi sínu og bókasafninu við skólann í Winnipeg þar sem mikill metnaður er lagður í íslenskukennslu.

Við ætlum að tala um starf hennar á bókasafninu líka, en einnig um æsku Katrínar sem var ekki besti tími hennar lífs. Í raun var förin til Íslands öðrum þræði flótti með það fyrir augum að draga breitt strik í sandfjöru lífsins og byrja upp á nýtt – á Íslandi.

Katrín ásamt Heather sem er yfir því sem kallast „special …
Katrín ásamt Heather sem er yfir því sem kallast „special collections“ á bókasafninu, meðal annars íslenskum og slavneskum bókmenntum. Ljósmynd/Aðsend

„Mamma var vændiskona og á kafi í fíkniefnaneyslu,“ byrjar Katrín frásögnina af því sem hún man af fyrstu árum sínum. Minningarnar eru sárar en hún er komin yfir það. „Ég get alveg talað um mömmu. Ég skammast mín ekki fyrir það sem gerðist og ég er bara komin yfir þetta,“ segir hún, röddin glaðhlakkaleg og full einhvers konar kátínu, enda lærist blaðamanni það fljótt að Katrínu var skammtað ríkulega af kímnigáfu – eða skammtaði sér hana bara sjálf.

Ert ekki hvítt rusl án „lynn“

„Mamma skírði mig Ko-Leen, því það var ímyndaður vinur hennar í neyslunni, hún var sjaldnast með sjálfri sér. Taralynn kom til af því að þú getur ekki verið „hvítt rusl“ án þess að „lynn“ komi fyrir einhvers staðar í nafninu,“ segir Katrín með álíka rólegheitablæ og hún sé að panta sér pylsu með öllu, en setningin skilar sér eiginlega ekki almennilega nema á ensku svo Morgunblaðið leyfir sér það í þetta sinnið: „Taralynn because you cannot be white trash without a „lynn“ in there somewhere.“

Margt vissi maður ekki um nafnahefðir þar vestanhafs, en Katrín lýkur við orðskýringar sínar eins og prófessor í málvísindum. „Mary Della á að vera komið frá einhverri fjölskyldu sem ég hef reyndar hvorki hitt né heyrt um fyrir utan að mér var sagt að þetta væru nöfn innan fjölskyldunnar.

Hluti íslenskudeildar bókasafns Manitoba-háskólans þar sem Katrín Níelsdóttir ræður ríkjum.
Hluti íslenskudeildar bókasafns Manitoba-háskólans þar sem Katrín Níelsdóttir ræður ríkjum. Ljósmynd/Aðsend

Edwards var eftirnafn mömmu og Stranden var eftirnafn pabba hálfsystur minnar sem festist við mig þegar þau mamma giftu sig í nokkra mánuði og svo hékk það bara áfram af því að mamma heimtaði að hann borgaði barnabætur með mér. Þetta er ástæðan fyrir því að ég hef svo mikinn áhuga á mannanöfnum, mitt er tvær línur í fæðingarvottorðinu mínu,“ lýkur Katrín nafnskýringu sem ekkert viðurnefni Íslendingasagna kæmist í hálfkvisti við og hlær að auki.

Pabbinn var kúnni hjá mömmu

Frásögnin af móður hennar er dapurlegri en hið ógnarlanga kanadíska nafn Katrínar Níelsdóttur og hér er Níelsdóttir raunar óskýrt enn þá. „Pabbi minn var kúnni hjá mömmu, hún vissi aldrei nafnið hans, en ég tók mér nafnið Níelsdóttir af því að pabbi Shantell hálfsystur minnar heitir Neil.

Shantell er eina hálfsystkinið sem ég á eftir, hálfbróðir minn, sem var sonur annars kúnna mömmu, var myrtur fyrir mörgum árum,“ segir bókavörðurinn frá og blaðamaður veltir því stuttlega fyrir sér hve margir bókaverðir á Landsbókasafni Íslands, eða á safninu í Gerðubergi til dæmis, eigi sér hulda ævisögu sem nálgast sögu bókavarðarins á íslenska safninu í Winnipeg. Líklega fáir.

„Þótt þú langförull legðir/sérhvert land undir fót...“ orti Stephan G. …
„Þótt þú langförull legðir/sérhvert land undir fót...“ orti Stephan G. Stephansson Klettafjallaskáld. Augljóst er hver er hálfur Íslendingur í ruðningsliði síns skóla, Leópold sonur Katrínar stendur aftast og gnæfir yfir hjörðina. Ljósmynd/Aðsend

„Það var ekki starfið hennar mömmu sem var það versta,“ segir Katrín alvarleg og lítur til baka til þess tíma þegar líf hennar var einn dimmur dalur. Hún var barn frá Outlook í Mið-Saskatchewan í Kanada og alvarlega vanrækt. Í raun er hálfgert kraftaverk að Katrín Níelsdóttir sé bókavörður íslenska bókasafnsins við Manitoba-skólann þegar þetta er skrifað. Margir með hennar sögu væru hreinlega ekki á lífi – og alls ekki bókaverðir.

„Kreppubarnið“ Leópold

„Það voru eiturlyfin,“ heldur hún áfram um það sem var það versta. „Ég var ítrekað lögð inn á sjúkrahús sem barn af því að mamma gaf mér ekkert að borða. Hún skipti ekki einu sinni á mér þegar ég gekk með bleiu,“ rifjar Katrín upp og sú mynd sem hún kallar fram er ekkert annað en martraðarsýn.

Þó er hún hvorki reið né bitur – sem viðmælandi er hún einfaldlega glaðleg ung kona með mikinn áhuga og metnað fyrir starfi sínu. Katrín er fædd árið 1981 og á þrjá drengi, Kasper, Stefán og Leópold, sá síðastnefndi býr enn hjá mömmu, fæddur 2009, „kreppubarn“ segir Katrín hlæjandi og vísar til bankahrunsins á Íslandi. Hinir piltarnir eru fæddir 2000 og 2003.

Góð vinkona á Íslandi, hin franska Laura (t.v.). Katrín undi …
Góð vinkona á Íslandi, hin franska Laura (t.v.). Katrín undi hag sínum vel á landi elds og ísa enda hafa tengslin milli Íslendinga og Kanadabúa alltaf verið sterk. Ljósmynd/Aðsend

„Einu sinni kom félagsráðgjafi heim vegna þess að nágranni okkar kvartaði yfir lyktinni frá íbúðinni. Hann fann dauða kettlinga inni í skáp og við hálfsystir mín vorum fastar inni í grindinni okkar þaktar eigin saur,“ segir Katrín af heimilishaldinu. Eitt skiptið hafi móðir hennar þó reynt að útvega barnapíu þegar hún fór út að vinna.

„Hún fann einhverja stelpu í auglýsingu í blaðinu og þessi stelpa kom inn, gekk rakleiðis út aftur og kom aldrei aftur. Hún reyndi nokkrar í viðbót en þegar þær héldust ekki í vistinni fór hún með okkur og skildi okkur eftir á félagsmálastofnuninni,“ segir Katrín sallaróleg.

Varla talandi fimm ára

Svo seinþroska var hún eftir þetta uppeldi, ef svo skyldi kalla, að fimm ára gömul var hún varla talandi, manneskja sem í dag skartar meistaragráðu og vinnur starf sem krefst yfirgripsmikillar þekkingar á íslenskum bókmenntum.

„Svona gekk þetta allt saman þar til ég var orðin 14 ára,“ segir Katrín sem bjó á fjölda upptökuheimila auk þess að vera sífellt á sjúkrahúsum vegna vannæringar. „Svo er ég á spítala einu sinni sem oftar en þá flytur mamma bara til annarrar borgar og engin leið var að hafa uppi á henni. Þar með var ég flokkuð sem yfirgefið barn og sett í prógramm sem kallaðist „semi-independent living þar til ég var orðin 17 ára.“

Á skrifstofunni hjá féló. „Þarna var ég flokkuð sem yfirgefið …
Á skrifstofunni hjá féló. „Þarna var ég flokkuð sem yfirgefið barn og var bara geymd á skrifstofunni á meðan ákveðið var hvað ætti að gera við mig.“ Ljósmynd/Aðsend

Martröðinni sem móðirin var lauk þó ekki þótt Katrín væri komin á fullorðinsár. „Einn daginn kom lögreglan til að ná í hana og færa hana fyrir rétt vegna fjársvikamáls og ég vissi náttúrulega ekkert hvar hún var. Svo hringdi hún af og til í mig og jós því yfir mig hve ömurlegt lífið væri af því að börnin hennar gerðu aldrei neitt fyrir hana,“ segir Katrín sem einnig var höfð að féþúfu.

„Einu sinni kom hún til borgarinnar sem ég bjó þá í og sagðist vilja sjá mig, elstu dótturina sem hún saknaði svo mjög. Þá sannfærði hún mig um að gefa sér allar bækurnar mínar, ég safnaði vönduðum bókum þá, og fór svo og seldi þær allar til að útvega sér peninga.

„Þessi andlega misnotkun hélt í rauninni áfram þar til daginn sem ég flutti til Íslands og leit aldrei til baka,“ segir Katrín Níelsdóttir, bókavörður í Winnipeg, og blaðamaður áttar sig á því að það sem við ræddum um bókasafnið í klukkustundarlöngu viðtali kemst ekki fyrir hér í blaðinu. Það kemur þó í framhaldsviðtali af þessari frásögn sem Katrín lýkur með einni meitlaðri setningu:

„Svo er fólk hissa á því að ég hafi skipt um nafn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert