Formaður VG: Þjóðarmorð á Gasa

Guðmundur Ingi er fyrsti ráðherrann í ríkisstjórn Íslands til að …
Guðmundur Ingi er fyrsti ráðherrann í ríkisstjórn Íslands til að nota orðið þjóðarmorð á opinberum vettvangi. mbl/Eggert Jóhannesson

Formaður Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, kallaði framgöngu Ísraelsmanna á Gasasvæðinu þjóðarmorð á landsfundi flokksins í dag. Er hann fyrsti ráðherrann í ríkisstjórn Íslands til að gera það á opinberum vettvangi.

Þá fagnaði hann því að þingmaður flokksins hefði lagt fram þingsályktunartillögu um viðskiptaþvinganir gegn Ísrael.

Guðmundur Ingi hélt tölu á landsfundi flokksins í dag og sagði Ísraelsmenn ganga fram með ofríki á Vesturbakkanum og fremja þjóðarmorð á Gasasvæðinu. 

Sagði hann það skyldu flokksins sem friðarhreyfingar að tala fyrir málstað Palestínu. 

Viðskiptaþvinganir á Ísrael

„Í Palestínu fara Ísraelsmenn fram með ofríki á Vesturbakkanum og þjóðarmorði á Gasa. Ísraelsstjórn virðist hvorki virða alþjóðalög né úrskurði Alþjóðadómstólsins. Við erum að sjá stigmögnun átaka fyrir botni Miðjarðarhafs að eiga sér stað með innrás Ísraels í Líbanon. Það er einfaldlega ekki gott að sjá hvar þetta endar.

Íslensk stjórnvöld hafa á alþjóðavettvangi kallað eftir því að Ísrael og Hamas samþykki langvarandi vopnahlé. Það má ekki dragast. Palestínumenn eiga fullan rétt á að byggja upp ríki sitt í takt við tveggja ríkja lausnina. Öll vitum við að Bandaríkjamenn eru lykilaðili í að láta þetta gerast,“ sagði Guðmundur Ingi og bætti við að það væri skylda VG sem friðarhreyfingar að tala fyrir málstað Palestínu og fyrir málstað friðar. 

Kvaðst hann fagna þingsályktunartillögu Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns VG, um að beita alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gegn Ísrael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert