„Hafði vissulega mikil áhrif á kerfin okkar“

Orku-og veitufyrirtækið Norðurorka á Akureyri.
Orku-og veitufyrirtækið Norðurorka á Akureyri. Ljósmynd/Norðurorka

Orku-og veitufyrirtækinu Norðurorku á Akureyri hafa borist þó nokkuð margar tjónstilkynningar vegna rafmagnstruflana sem urðu víðs vegar um landið í vikunni.

Þetta segir Gunnur Ýr Stefánsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu forstjóra hjá Norðurorku, í samtali við mbl.is.

„Við erum komin með 15 tjónstilkynningar til okkar og RARIK er búið að taka við 20 sem eiga heima hjá okkur,“ segir Gunnur.

Mörkin skýr

Hún segir að það hafi valdið talsverðum misskilningi að í fréttum sjónvarpsins daginn sem rafmagnstruflanirnar áttu sér stað hafi komið í fréttinni að tjónstilkynningar ættu að berast til RARIK.

„Mörkin eru mjög skýr. Norðurorka er innanbæjar á Akureyri og fyrir utan er það RARIK,“ segir Gunnur.

Gunnur segir að tilkynningarnar um tjónin hafi bæði borist frá heimilum og fyrirtækjum og þau séu alls konar. Margir hafi orðið fyrir tjóni á heimilistækjum og dæmi sé um tjón á gólfhitadælum. Spurð hvort Norðurorka hafi orðið fyrir einhverju tjóni segir hún:

„Í þessu atviki lítur út fyrir að það hafi sloppið nokkuð vel hjá okkur í þetta skipti en þetta hafði vissulega mikil áhrif á kerfin okkar í öllum veitum. Það gekk vel að koma veitukerfunum í virkni.“

Hvetur viðskiptavini að tilkynna tjón

Gunnur hvetur viðskiptavini Norðurorku sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum rafmagnstruflana að senda inn tilkynningu á vef Norðurorku. Hún segir að fólk eigi að gefi sér góðan tíma til að fara yfir stöðuna endi liggi ekkert á fyrir fólk að senda inn tilkynningu um tjón sem það hefur orðið fyrir.

Hún segir að Norðurorka sé milliður og að viðskiptavinir eigi að hafa samband við Norðurorku sem muni senda tjónstilkynningarnar áfram til Landsnets.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert