Sakfelldur fyrir nauðgun: Kvaðst vera undir áhrifum kynferðislegrar svefnröskunar

Yfirmatsmenn komust að þeirri niðurstöðu að mjög ólíklegt og nánast …
Yfirmatsmenn komust að þeirri niðurstöðu að mjög ólíklegt og nánast útilokað væri verið að maðurinn hefði verið undir áhrifum kynferðislegrar svefnröskunar er umrætt atvik átti sér stað. Ljósmynd/Colourbox

Landsréttur hefur staðfest tveggja og hálfs árs fangelsisdóm yfir karlmanni sem var sakfelldur fyrir að hafa haft samræði við konu eftir að hún var sofnuð og án hennar samþykkis og notfært sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í málinu féll í maí í fyrra en Landsréttur staðfesti dóminn í gær. Var manninum einnig gert að greiða konunni 2.000.000 krónur í miskabætur.

Neitaði sök

Brotið átti sér stað í maí 2021. Fram kemur í dómi Landsréttar að maðurinn hefði neitað sök og krafist sýknu. Í greinargerð hans fyrir héraðsdómi var bent á að ummerki á konunni bæru ekki með sér að um kynferðismök án samþykkis hefði verið að ræða og ósannað væri að samþykki hefði ekki legið fyrir, tjáð af fúsum og frjálsum vilja á þeim tíma sem atburðurinn átti sér stað.

Ákæruvaldið hafi ekki sýnt fram á, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að atvik hafi verið með þeim hætti sem lýst sé í ákæru.

Hafi stundað kynlíf sofandi

„Þá hafi ákærði borið að hann hafi áður stundað kynlíf sofandi. Bæði barnsmóðir ákærða og fyrrverandi kærasta hans hafi staðfest að ákærði eigi til svefngöngu og kynlíf í svefni sem tengt hafi verið meðal annars við áfengis-og/eða vímuefnanotkun. Sé nauðgun ekki refsiverð að lögum nema hún sé framin af ásetningi og sé ljóst að sakborningur geti ekki framið brot af ásetningi þegar hann er sofandi,“ segir m.a. í dómi Landsréttar. 

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir neitun mannsins þá væri hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hefði gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefið að sök í ákæru og að háttsemin væri þar rétt heimfærð til refsiákvæða.

Ekkert hald í vörn mannsins

 „Ekkert hald væri í þeirri vörn ákærða að hann hefði framið verknaðinn í ástandi sem skýrðist af því að hann væri haldinn kynferðislegri svefnröskun og því hefði skort ásetning til samræðis við brotaþola,“ segir í dómi héraðsdóms. 

Fram kemur í dómnum, að maðurinn hafi komið á heimili brotaþola og kærasta hennar að morgni sunnudagsins 23. maí 2021 þar sem neytt var áfengis og fíkniefna. Fyrir liggur að þau þrjú höfðu þekkst lengi og var ákveðið að maðurinn myndi gista á heimilinu.

Nokkru eftir komu mannsins segjast konan og kærasti hennar hafa verið orðin þreytt og ákveðið að fara að sofa. Þau hafi farið inn í svefnherbergi og reynt að læsa að sér en það ekki tekist. Þau hafi sett mynd af stað í tölvunni og farið að sofa.

Bar við minnisleysi

Konan kvaðst hafa sofnað nakin og vaknað við að maðurinn hefði verið kominn upp í rúm til þeirra, legið þar á hliðinni og verið að hafa samfarir við hana um leggöng. Konan kvaðst hafa vakið kærasta sinn sem hefði spurt manninn hvað hann hefði verið að gera. Hann svaraði því að ekkert hefði gerst, hann hefði bara verið sofandi.

Landsréttur segir, að þótt framburður mannsins við rannsókn málsins og fyrir dómi hafi ekki verið óstöðugur þá sé til þess að líta að yfirmatsmenn hafi komist að þeirri niðurstöðu að mjög ólíklegt og nánast útilokað sé að hann hafi verið undir áhrifum kynferðislegrar svefnröskunar er umrætt atvik átti sér stað.

Hafi yfirmatsmenn meðal annars útskýrt þá niðurstöðu með vísan til þess að sú atburðarás sem fram komi í gögnum málsins falli ekki að þeim aðstæðum sem séu dæmigerðar fyrir kynferðislega svefnröskun. Ætlað minnisleysi mannsins um atvikið megi mögulega rekja til áfengisneyslu hans í aðdraganda atviksins.

„Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður sú niðurstaða staðfest að leggja beri til grundvallar að hafið sé yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi haft samræði við brotaþola umrætt sinn er hún var sofandi og án hennar samþykkis og notfært sér að þannig var ástatt um hana að hún gat ekki spornað við verknaðnum sökum svefndrunga,“ segir í dómi Landsréttar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert