Mun óska svara frá ráðuneytum eftir banaslys

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. mbl.is/Karítas

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, segir að vert sé að skoða óskir fjölskyldu Lúðvíks Péturssonar, sem lést með voveiflegum hætti þegar hann féll ofan í sprungu í Grindavík, um að heildstæð rannsókn verði gerð á slysinu.

Hann muni óska eftir svörum frá ráðuneytum sem koma að málinu. 

Þegar hefur farið fram rannsókn á vettvangi Vinnueftirlitsins á slysinu en enn hefur þáttur Almannavarna og náttúruhamfaratrygginga ekki verið skoðaður. 

Vilja grafa upp líkamsleifar Lúðvíks 

Fram kom í frétt á RÚV að fjölskylda Lúðvíks hefur óskað eftir því að tilraun verði gerð til þess að hafa uppi á líkamsleifum Lúðvíks. En jafnframt að fram fari rannsókn á öllum hliðum málsins. 

Lúðvík lést eftir að hann féll ofan í sprungu þann 10. janúar þegar hann var að fylla upp í sprungu í hópahverfi í Grindavík. Hann var að vinna fyrir Náttúruhamfaratryggingar Íslands. 

Mun ræða við ráðherra 

„Þetta er mál sem við hljótum að þurfa að skoða í fagráðuneytum sem eiga þar viðkomu. Ég mun ræða við ráðherra þeirra málaflokka sem hér koma að málum. Þetta eru ekki bara skiljanlegar athugasemdir frá nánustu aðstandendum, heldur eru þetta líka mjög mikilvæg álitamál sem við þurfum að svara. Þau varða almennt verklag og viðbragð við aðstæðum sem geta líkst því sem við vorum að fást við þarna,“ segir Bjarni. 

Hann segist ekki velkjast í vafa um það að menn hafi dregið einhvern lærdóm af slysinu en engu að síður sé mikilvægt að rýna betur í málin. 

„Hvort að allir ferlar og að öllum spurningum hafi verið svarað, get ég ekki fullyrt um. Ég mun því óska eftir því að fagráðuneytin sem hafa aðkomu að þessu muni taka afstöðu til þessa,“ segir Bjarni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert