Niðurfelling byrlunarmálsins hæpin

Niðurfelling á lögreglurannsókn á byrlunarmálinu er um margt hæpin, segir Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. Í sakamálarannsókn skipti hlutdeild hvers og eins sakbornings ekki máli, heldur sé heildarbrotið til skoðunar.

Hann ber það saman við rannsóknir og dóma í fíkniefnamálum, þar sem slíkt hafi ekki flækst fyrir mönnum til þessa.

„Þarna er einhver hópur manna sem tekur sameiginlega þátt í broti. Einn er klárlega höfuðpaurinn, það er sá sem tekur símann og kemur með hann upp í [Ríkisútvarpið í] Efstaleiti. Þar bíður fólk – svona svipað og þeir sem taka fíkniefnin úr pakkningunum og eiga að dreifa á Íslandi,“ segir Sigurður.

„Þau taka upplýsingarnar úr símanum og þau fara að dreifa þeim. Þeir eru þá hlutdeildarmenn í broti. Það er bara þannig samkvæmt refsirétti.“

Þetta kemur fram í viðtali við Sigurð í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins, á netinu, sem opið er öllum áskrifendum. Þáttinn má horfa á í heild sinni hér:

Þrír hlutdeildarmenn að afbrotinu þekktir

Sigurður minnist á grundvallaregluna um að menn séu saklausir uns sekt þeirra sé sönnuð.

„Það liggur fyrir að símanum var stolið. Honum var komið upp í Ríkisútvarp. Hann var afritaður í Ríkisútvarpinu. Það eru þrír menn sem eru þekktir. Allir þessir aðilar hafa þá komið að brotinu,“ segir Sigurður og telur framhaldið ekki hafa átt að vefjast fyrir mönnum miðað við hefðbunda meðferð refsimála.

„Þegar liggur fyrir játning og þegar liggur fyrir vísbending um að þessi hafi gert þetta og þessi hitt, þá eru meiri líkur en minni fyrir því að það verði sakfellt. Þegar svo stendur á eru gefnar út ákærur.“

Hann rekur að í fíkniefnamálum og ýmsum afbrotamálum öðrum skipti menn iðulega með sér verkum, en það séu allir ákærðir. Hvað teljist sannað á hendur hverjum og einum og hversu stór hlutdeild þeirra sé í brotinu skipti ekki máli fyrr en dómari útdeili refsingunni.

„Þetta er ekkert öðru vísi mál en öll önnur sakamál,“ segir Sigurður

„Niðurfellingin á þessu máli er mjög sérkennileg. Mjög sérkennileg. Því er í raun lýst yfir að þarna séu sekir einstaklingar á ferð, en við höfum ekki alveg næg sönnunargögn til þess að sakfella þá. Bíddu… þá áttuð þið ekki að skrifa þennan langhund um niðurfellinguna.“

Þriggja ára rannsókn lokið

Lögreglan á Norðurlandi eystra hætti nýlega þriggja ára rannsókn á svonefndu byrlunarmáli þrátt fyrir að hluti málsins virtist upplýstur. Það snerist um að Páli Steingrímssyni, skipstjóra hjá Samherja á Akureyri, var vorið 2021 byrlað lyf, svo hann lá milli heims og helju á gjörgæsludeild í nokkra daga.

Á meðan stal byrlarinn farsíma hans og kom í hendur starfsmanna Ríkisútvarpsins, þeirra Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks, og Arnars Þórissonar, framleiðanda sama þáttar. Fréttir úr efni á símanum voru hins vegar sagðar í Stundinni og Kjarnanum nokkru síðar. Við rannsóknina fengu sjö stöðu sakborninga, símaþjófurinn og sex fjölmiðlamenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert