Raforkukostnaður hækkaði um 10,7% hjá Veitum

Rafmagn - rafmagnsleysi - rafmagnsinnstunga - innstunga
Rafmagn - rafmagnsleysi - rafmagnsinnstunga - innstunga Ljósmynd/Colourbox

Gjöld vegna dreifingar rafmagns og önnur gjöld raforku hækkuðu um 10,7% 1. ágúst hjá Veitum og jafnframt hækkaði verðskrá fyrir heitt vatn um tæplega 4%.

Gjöld vegna álagningargjalda fráveitu og kalda vatnsins héldust óbreytt.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.

„Nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskrám“

Samkvæmt Veitum þá hafa verðhækkanirnar í för með sér að „meðalheimilið“, 100 fermetra íbúð, greiðir 782 krónur meira á mánuði fyrir heita vatnið og dreifingu rafmagns.

Meðalheimilið með rafbíl greiðir 1.026 krónur meira á mánuði.

„Samfélagið er að vaxa og því fylgja umfangsmiklar veituframkvæmdir, auk þess sem orkuskiptunum fylgja töluverðar framkvæmdir. Nauðsynlegt er að gera breytingar á verðskrám til að standa undir eðlilegu viðhaldi sem og nýframkvæmdum svo hægt sé að tryggja rafmagn fyrir orkuskipti og örugga afhendingu vatns til allra,“ er haft eftir Sólrúnu Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna, í tilkynningunni.

Verð lækkað miðað við verðbólgu síðasta áratug

Segir í tilkynningunni að verð fyrir raforkudreifingu sé oft um helmingur rafmagnskostnaðar heimila til móts við orkusölu.

„Gjöld fyrir raforkudreifingu skiptast svo í gjöld til Veitna, flutningsgjald sem Veitur innheimta fyrir Landsnet og svo jöfnunargjald og virðisaukaskatt,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að hækkun verðskrár Veitna fyrir heitt vatn sé í samræmi við breytingu á vísitölu neysluverðs.

Í tilkynningunni birtist graf sem sýnir þróun gjaldskrá Veitna samanborið við þróun vísitölu neysluverðs frá árinu 2014. Kemur þar fram að vatnsgjald er búið að lækka um 35,7%, dreifing á rafmagni lækkað um 11,9% og fráveita lækkað um 8,2%. Heitt vatn hefur hækkað um 0,8%.

Fram kom í tilkynningunni að myndin sé birt með fyrirvara …
Fram kom í tilkynningunni að myndin sé birt með fyrirvara um að gildi vísitölu neysluverðs ágúst mánaðar var ekki komið. Tölvuteiknuð mynd/Veitur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert