Tröllaskagagöng verði skoðuð

Bakkaselsbrekka í Öxnadal er fyrsti áfanginn upp á heiðina.
Bakkaselsbrekka í Öxnadal er fyrsti áfanginn upp á heiðina. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Fimmtán þingmenn úr fjórum flokkum hafa lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um Tröllaskagagöng milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.

Hjá Vegagerðinni hefur verið til skoðunar að grafa jarðgöng undir Öxnadalsheiði. Sú framkvæmd verður væntanlega ekki að veruleika í bráð því hún er 10. í röðinni á lista yfir forgangsröðun jargangaframkvæmda til næstu 30 ára.

Tröllaskaginn er fjöllóttur og ná margir tindar yfir 1.200 metra yfir sjávarmál og nokkrir yfir 1.400 metra. Hæst er Kerling, 1.538 metrar.

Þingsályktunartillagan hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela innviðaráðherra að láta hefja vinnu við rannsóknir, frumhönnun og mat á hagkvæmni á gerð jarðganga á Tröllaskaga. Ráðherra skili Alþingi skýrslu með niðurstöðum fyrir 1. febrúar 2025.“ Tillagan var flutt á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu.

Kort/mbl.is

Kostirnir eru margir

Fyrsti flutningsmaður er Stefán Vagn Stefánsson, Framsóknarflokki. Aðrir flutningsmenn eru Ágúst Bjarni Garðarsson, Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Halla Signý Kristjánsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson, Ingibjörg Isaksen, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Jón Gunnarsson, Björn Leví Gunnarsson, Inga Sæland, Guðmundur Ingi Kristinsson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Eyjólfur Ármannsson og Tómas A. Tómasson.

Í greinargerð með tillögunni segir að Tröllaskagagöng hafi komið til umræðu við og við á liðnum árum. Hefur þá einkum verið rætt um tvo valkosti, annars vegar göng frá Hofsdal yfir í Barkárdal og hins vegar tvenn jarðgöng, fyrst úr Hörgárdal yfir í Skíðadal, sem er inn af Svarfaðardal, og þaðan vestur í Kolbeinsdal í Skagafirði.

Í samgöngu- og innviðaáætlun Norðurlands vestra frá apríl 2022 komi fram að jarðgöng á Tröllaskaga séu enn meðal helstu áhersluverkefna. Það þurfi varla að tíunda þá kosti sem þessi göng hefðu í för með sér með öruggara aðgengi íbúa Norðurlands vestra að Sjúkrahúsinu á Akureyri. Auk þess að stytta leiðina yrði ekki um fjallveg að fara úr Skagafirði til Akureyrar.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 3. október. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert