„Ég bjóst ekki við þessum mikla halla“

Einar Þorsteinsson borgarstjóri.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri. mbl.is/Karítas

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark að rekstur borgarinnar hafi verið verri en hann reiknaði með þegar hann tók við embætti formanns borgarráðs sumarið 2022.

Einar, sem er oddviti Framsóknarflokksins, var formaður borgarráðs í 18 mánuði en settist í stól borgarstjóra í stað Dags B. Eggertssonar þann 16. febrúar á þessu ári.

„Ég las ársreikninginn frá árinu áður þegar ég fór í framboð. Þá var gert ráð fyrir 3,8 milljarða halla. Síðan kom fyrsta hálfs árs uppgjörið í byrjun september og þá kemur 9,8 milljarða halli í ljós. Á endanum sá maður svo að hann var kominn í 16,3 milljarða,“ segir Einar meðal annars í viðtalinu.

Honum segist hafa fallið dálítið hendur en í uppgjörinu hafi spilað inn í fjármagnsliðir og há verðbólga.

„Við réðumst strax í talsverðar hagræðingar aðgerðir um haustið þegar við tókum við. Það var ekki það sem ég bjóst við að fara að gera. Útlitið var miklu verra en ég bjóst við. Ég bjóst ekki við þessum mikla halla en það var ekkert talað um þetta í kosningabaráttunni,“ segir Einar enn fremur í viðtalinu.

Hátt í 100 hagræðingaraðgerðir 

Einar segir að borgin hafi staðið í mikilli hagræðingu síðustu tvö árin og nefnir hann í því sambandi hátt í 100 hagræðingaraðgerðir sem hafi verið ráðist í og verið sé að taka starfsmannamálin hjá borginni fastari tökum.

Rekstrarniðurstaða A-hluta Reykjavíkurborgar var jákvæð um 196 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins.

„Nú fengum við þetta hálfs árs uppgjör fyrir um viku síðan og við erum komin í grænar tölur sem ég er ánægður með. Þetta er samt brothætt. Það er talsverð verðbólga og ótrúlega háir vextir. Fjármagnskostnaðurinn er ógeðslega mikill,“ segir Einar.

Hann segir að borgin sé að enn að vaxa og verið sé að byggja marga leik-og grunnskóla ásamt nýjum hverfum.

„Við skerum allt niður sem við getum nema það sem fólkið þarf mest á að halda, leikskóla, grunnskóla og fjárfestingu fyrir ný hverfi. Við þurfum að tryggja að húsnæðisuppbyggingin hiki ekki,“ segir Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka