Dýrmæt hjálparhönd Ingibjargar

Sonam Gangsang á Oddsson-hótelinu í Reykjavík þar sem hún hitti …
Sonam Gangsang á Oddsson-hótelinu í Reykjavík þar sem hún hitti blaðamanna og ljósmyndara frá Mbl. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er það á hverjum degi sem tækifæri gefst til að hitta einhvern frá Tíbet, stað í Asíu sem á vissan hátt er sveipaður dulúð í huga okkar í norðanverðri Evrópu. Þar til síðsumars var einnig ósennilegt að Sonam Gangsang frá Tíbet myndi ræða við blaðamann á íslenskri grundu. Hún er rúmlega fertug og fór í sína fyrstu utanlandsferð þegar hún kom til Íslands á dögunum í boði SOS Barnaþorpanna og samstarfsaðila.

„Ég hef líklega verið fimm eða sex ára gömul þegar ég heyrði af Íslandi í fyrsta skipti. Þá fékk ég styrktaraðila frá Íslandi [Ingibjörgu Steingrímsdóttur] í barnaþorpinu á Indlandi. Í framhaldinu fékk ég bréf og fleira frá Ingibjörgu. Í skólanum fengum við leyfi til að skrifa styrktaraðilunum okkar bréf eða teikna mynd til að senda,“ segir Sonam en hún og Ingibjörg voru í reglulegum samskiptum upp frá því.

Foreldrarnir flúðu

Foreldrar Sonam flúðu Tíbet þegar Kínverjar tóku þar völdin árið 1959 og fóru þau fótgangandi yfir landamærin til Indlands. Þar er Sonam alin upp. Þau bjuggu við afar kröpp kjör og Sonam fór í barnaþorp SOS fyrir börn landflótta Tíbeta í bænum Leh sem er á Himalajahásléttunni. Segir hún það hafa verið gæfu sína.

„Stuðningurinn frá Ingibjörgu og SOS Barnaþorpunum gerði mér kleift að afla mér menntunar. Vegna Ingibjargar þurfti ég ekki að hafa áhyggjur af kostnaði við skólagönguna. Síðar fór ég í háskólanám og starfa nú hjá útlagastjórn Tíbet. Í dag get ég ekki einungis framfleytt mér heldur gat ég einnig stutt systkini mín og foreldra,“ útskýrir Sonam en Ingibjörg greindi frá því í viðtali á vef SOS Barnaþorpanna á Íslandi árið 2021 að upphæðirnar sem breyttu lífi 11 manna fjölskyldu hefðu ekki verið háar á íslenskan mælikvarða.

Sonam Gangsang og Ingibjörg Steingrímsdóttir hittust á Íslandi síðsumars.
Sonam Gangsang og Ingibjörg Steingrímsdóttir hittust á Íslandi síðsumars. Ljósmynd/SOS Barnaþorpin

Í Íslandsheimsókninni hitti hún Ingibjörgu í annað sinn á ævinni en Ingibjörg fór utan og hitti Sonam sumarið 2008. Fjarsamband þeirra er orðið langt en vendipunkturinn var þegar Ingibjörg las Morgunblaðið árið 1989 og sá þar grein um SOS Barnaþorpin. Í framhaldinu tók Ingibjörg ákvörðun um að gerast styrktarforeldri.

Er án vegabréfs

SOS Barnaþorpin á Íslandi aðstoðuðu Sonam við að komast til landsins en fyrir Tíbeta er það hægara sagt en gert að ferðast.

„Ég er afskaplega þakklát fyrir að fá tækifæri til að hitta Ingibjörgu aftur og kynnast Íslandi enda er þetta í fyrsta skipti sem ég fer út fyrir Indland. Í uppvextinum virtist það vera fjarlægur draumur að hitta Ingibjörgu í eigin persónu og nokkuð sem ekki væri skynsamlegt að gera sér vonir um. Sem flóttamaður frá Tíbet er ég hvorki með vegabréf frá Tíbet né Indlandi. Ég er með dvalarleyfi á Indlandi og er með svokallaða gula bók sem er leyfi til að ferðast. Starfsmenn á flugvöllum vita hins vegar sjaldnast hvað það þýðir. Á ferð minni til Íslands fékk ég því fyrsta stimpilinn í gulu bókina og starfsmönnum á flugvellinum í Helsinki þótti þetta mjög merkilegt.“

Starfar fyrir stjórnvöld

Að loknu menntaskólanámi útskrifaðist Sonam árið 2013 með kennararéttindi og varð grunnskólakennari. Fjórum árum síðar flutti Sonam til borgarinnar Dharamshala við Himalajafjallgarðinn þar sem hún var ráðin til starfa hjá menntamálaráðuneyti útlagastjórnar Tíbet. Þess má geta að Dalai Lama dvelur í Dharamshala. Þar skipuleggur Sonam lestrarkennslu í 45 tíbeskum leik- og grunnskólum á Indlandi og í Nepal. Má því segja að gjafir Ingibjargar haldi áfram að gefa.

„Við reynum að vera bjartsýn varðandi framtíð Tíbet. Við þurfum að vera dugleg að vekja athygli á stöðunni í Tíbet og berjast fyrir frelsinu. Útlagastjórnin reynir að finna leiðir til að eiga samskipti við kínversk stjórnvöld í von um að leysa málin. Við höfum séð jákvæða breytingu í þá átt og mörg ríki styðja málstað Tíbeta. Ég get ekki sett mig í spor þeirra sem þar búa því ég nýt meira frelsis á Indlandi en fólk gerir í Tíbet.“

Opin svæði heillandi

Ekki er hjá því komist að spyrja Sonam út í Ísland eftir nokkurra daga dvöl.

„Ég hef ekki aðra reynslu af því að ferðast en miðað við það sem maður hefur lesið um heiminn á netinu þá myndi ég halda að Ísland sé býsna frábrugðið öðrum löndum. Ég kvarta ekki undan kuldanum því hann þekki ég frá mínum heimaslóðum. Það vekur athygli mína að hér eru mörg opin svæði þar sem börnin geta notið sín og það kann ég að meta,“ segir Sonam sem kom hingað ásamt eiginmanni sínum og ungum syni.

Lífshlaupið vakti athygli á viðburði SOS

Sonam sat fyrir svörum í pallborði á sérstökum viðburði fyrir styrktaraðila SOS hér á landi og ræddi um uppvaxtarár sín í SOS barnaþorpinu:

Myndskeið SOS Barnaþorpanna frá viðburðinum

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert