Engu um að kenna nema handónýtu kerfi

Útför Kolfinnu Eldeyjar fór fram frá Grafarvogskirkju í gær.
Útför Kolfinnu Eldeyjar fór fram frá Grafarvogskirkju í gær. Samsett mynd

Móðir hinn­ar 10 ára Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urðardótt­ur, sem ráðinn var bani um miðjan sept­em­ber, seg­ir engu hægt að kenna um dauða henn­ar nema handónýtu kerfi sem komi fram við fólk eins og það hafi ekki vit á því sjálft hvernig því líður, lít­il­lækki fólk sem leiti sér hjálp­ar og sendi jafn­vel fár­veikt fólk heim til sín þar sem það skaði sjálf sig og aðra.

Þetta kem­ur fram í færslu Örnu Ýrar Sig­urðardótt­ur, sókn­ar­prests í Grafar­vogs­kirkju. Þar vís­ar hún í minn­ing­ar­orð Ingu Dag­nýj­ar Inga­dótt­ur, móður Kolfinnu, en út­för henn­ar fór fram frá Grafar­vogs­kirkju í gær. Fram kem­ur í færslu Örnu að Ingu Dag­nýju hafi fund­ist hluti minn­ing­ar­orðanna eiga er­indi við sam­fé­lagið allt og Arna hafi fengið leyfi til að koma þeim til skila.

„Dauði Kolfinnu kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Kring­um­stæðurn­ar eru okk­ur al­gjör­lega óskilj­an­leg­ar og munu lík­lega alltaf vera það, því það er senni­lega mesta ráðgáta lífs­ins þegar for­eldri sem elsk­ar barnið sitt get­ur samt ekki verndað það fyr­ir sjálfu sér,“ skrif­ar Arna meðal ann­ars.

Þarf að for­gangsraða upp á nýtt

Því miður sé það alltof oft raun­in að fólk fái ekki þá aðstoð sem það þurfi inn­an geðheil­brigðis­kerf­is­ins.

„Við þurf­um að fara að horf­ast í augu við það að geðsjúk­dóm­ar draga fólk til dauða al­veg eins og krabba­mein og hjarta­sjúk­dóm­ar, og við þurf­um að aflétta skömm­inni sem ligg­ur eins og mara yfir fólki með þessa sjúk­dóma, og ekki síður eins og mara yfir aðstand­end­um. Og ef við vilj­um koma í veg fyr­ir fleiri voðaverk, þar sem sak­laus börn láta lífið, eins og hef­ur nú gerst þris­var á þessu eina ári, þá þurf­um við sem sam­fé­lag að spýta í lóf­ana, þrýsta á stjórn­völd um að efla veru­lega alla geðheil­brigðisþjón­ustu, sem og þjón­ustu við börn sem glíma við erfiðan vanda í skóla­kerf­inu.

Við hljót­um öll að vera sam­mála um að þarna þarf að for­gangsraða upp á nýtt, því að hvert manns­líf sem glat­ast vegna skorts á fjár­magni og mannúð í geðheil­brigðis­kerf­inu er einu manns­lífi of mikið.“

„Hún var sól­ar­geisli fjöl­skyld­unn­ar“

Nú bíði fjöl­skyldu Kolfinnu það verk­efni að fóta sig í nýj­um veru­leika. Verk­efni sam­fé­lags­ins sé að læra af reynsl­unni og gera bet­ur. 

„Þar bera stjórn­völd mikla ábyrgð og ég skora á þau að láta dauða Kolfinnu ekki verða til einskis.“

Arna seg­ir Kolfinnu ekki hafa átt langa ævi, en hægt sé að lifa í stutt­an tíma og hafa þannig áhrif á heim­inn í kring­um sig að hann verði betri en áður. Það hafi Kolfinna gert.

„Hún kenndi öll­um um hvað ást og kær­leik­ur snýst. Hún var sól­ar­geisli fjöl­skyld­unn­ar, eng­ill­inn sem þau fengu að hafa í 10 ár.“

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert