Miðflokkur stærri en Sjálfstæðisflokkur í öllum kjördæmum

Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðflokkurinn er stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í öllum kjördæmum og Sósíalistaflokkurinn mælist með yfir 9% fylgi í Reykjavík suður. Sjálfstæðisflokkurinn fær sína bestu mælingu í Suðurkjördæmi en Framsókn fær sína verstu mælingu í Reykjavík norður. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, yrði ekki kjördæmakjörinn þingmaður í Suðurkjördæmi. 

Ríkisútvarpið birti þjóðar­púls Gallup í síðustu viku en mbl.is hef­ur fengið gögn frá fyrirtækinu þar sem niður­stöðunum er skipt upp eft­ir kjör­dæm­um.

Vert er að taka fram að í aðeins einu kjördæmi eru yfir þúsund svör og því ekki tölfræðilega marktækur munur á sumum flokkum í kjördæmunum. 

Reykjavíkurkjördæmi suður

Framsókn fengi ekki kjördæmakjörinn þingmann í Reykjavík suður frekar en Vinstri græn, en VG myndi hvergi fá kjörinn þingmann.

Samfylkingin er stærsti flokkurinn með 25,3% fylgi en um er að ræða kjördæmi Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar.

Miðflokkurinn mælist með 14,3% fylgi og Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 13,4% fylgi. 

Athygli vekur að Sósíalistaflokkurinn mælist með 9,2% fylgi. 

Reykjavíkurkjördæmi norður

Samfylkingin mælist með sitt mesta fylgi í Reykjavíkurkjördæmi norður, eða 31,1% fylgi. Framsókn mælist með sitt minnsta fylgi í kjördæminu, eða 2,9%. 

Miðflokkur mælist með 13,3% fylgi og Sjálfstæðisflokkur 13% fylgi. Viðreisn mælist með 12,4% fylgi og Píratar rétt rúmlega 10% fylgi. Framsókn myndi ekki fá kjördæmakjörinn þingmann. 

Suðvesturkjördæmi

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15,5% fylgi í kjördæmi formannsins og Viðreisn mælist með 12,5%. Samfylkingin mælist með 26,2% fylgi og Miðflokkur 20,7%. 

Framsókn fengi ekki kjördæmakjörinn þingmann í kjördæminu frekar en í öðrum kjördæmum höfuðborgarsvæðisins. Vinstri græn fá sína verstu mælingu í kjördæminu en flokkurinn mælist með 2,3% fylgi. 

Píratar og Flokkur fólksins mælast með um 6,6% fylgi. 

Suðurkjördæmi

Í Suðurkjördæmi fær Sjálfstæðisflokkurinn sína bestu mælingu og mælist með 15,9% fylgi. 

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, yrði ekki kjördæmakjörinn þingmaður Framsóknar miðað við þessa mælingu en flokkurinn mælist með 7,5% fylgi. 

Suðurkjördæmi er eitt sterkasta vígi Flokks fólksins en flokkurinn mælist með 9,2% fylgi.

Samfylkingin mælist með 25,1% fylgi og Miðflokkur mælist með 21,4% fylgi.

Norðausturkjördæmi

Samfylkingin er stærst í Norðausturkjördæmi og mælist flokkurinn með 25% fylgi. Miðflokkurinn mælist með 22,5% fylgi en um er að ræða kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins. 

Sjálfstæðisflokkurinn fær sína verstu mælingu í þessu kjördæmi en flokkurinn mælist með 10,7% fylgi. Viðreisn fær einnig sína verstu mælingu í þessu kjördæmi og mælist með 5,6% fylgi. 

Aftur á móti fær Flokkur fólksins sína bestu mælingu í þessu kjördæmi og mælist með 9,5% fylgi. Framsókn mælist með rúmlega 9% fylgi og myndi fá einn kjördæmakjörinn þingmann. 

Norðvesturkjördæmi

Miðflokkurinn er stærsti flokkurinn í Norðvesturkjördæmi og mælist með 21,7% fylgi. Samfylkingin mælist með 21,5% fylgi kjördæminu en Sjálfstæðisflokkurinn 14%.

Framsókn fær bestu mælinguna í þessu kjördæmi, mælist með 11,5% fylgi og fengi einn kjördæmakjörinn þingmann. 

Flokkur fólksins mælist með 7,2% fylgi en Píratar og Viðreisn mælast með 6,6% fylgi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert