Icelandair aflýsir flugi til og frá Orlando

Icelandair þarf að aflýsa flugi til og frá Flórída eins …
Icelandair þarf að aflýsa flugi til og frá Flórída eins og mörg önnur flugfélög. mbl.is/Árni Sæberg

Flugfélagið Icelandair tók ákvörðun í kvöld um að hætta við flug til og frá Orlando á morgun vegna fellibylsins Miltons sem nú nálgast Flórídaríki en þar er Orlando eins og flestir vita.

Flugi frá Orlando til Íslands á fimmtudaginn hefur einnig verið aflýst af sömu ástæðu. Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi greindi mbl.is frá þessu í kvöld. 

Flugi frá Orlando til Íslands í kvöld var auk þess flýtt og flugi sem átti að fara til Orlando frá Keflavík síðdegis í dag var aflýst. 

Icelandair fylgist áfram með þróun mála vestan hafs og upplýsir farþega í smáskilaboðum og tölvupósti en Guðni bendir á að einnig megi nýta Icelandair appið. 

Fram kemur í bandarískum fjölmiðlum að flugferðir, til og frá borgum í Flórída, sem aflýst hefur verið vegna Miltons séu mörg hundruð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert