Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, og Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, fóru hörðum orðum um stöðu ríkisstjórnarinnar á Alþingi í dag og gerðu lítið úr þeim áformum að klára ætti ákveðin mál ríkisstjórnarinnar.
Undir liðnum störf Alþingis stigu þeir báðir í pontu og gerðu stöðu ríkisstjórnarinnar að umtalsefni.
Sigmundur benti á að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi nýlega tilkynnt að kosningar yrðu í vor á meðan Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði í dag sagt að flokkarnir væru ekki að hætta samstarfinu og að mörg mikilvæg verkefni væru framundan.
Því næst sagði Sigmundur að þau mál sem Bjarni væri að vísa til væru sömu mál og samstarfsflokkar Sjálfstæðisflokksins væru búnir að tilkynna formlega að þeir myndu ekki styðja.
„Hversu lengi getur Alþingi og háttvirtir þingmenn meiri hlutans horft upp á þetta án þess að bregðast við?“ spurði Sigmundur í ræðu sinni.
Jóhann Páll mætti síðar í pontu þingsins og sagði ríkisstjórnarflokkana hræðast kosningar. „Ríkisstjórn Íslands hangir saman á hræðslunni við kjósendur, hræðslunni við að mæta örlögum sínum í kosningum eftir að hafa brugðist umbjóðendum sínum,“ sagði hann. Gagnrýndi hann meðal annars stöðu efnahagsmála og hversu mikið verðbólgan hefði farið á flug.
„Það er ekkert sem réttlætir það hvernig haldið hefur verið á málum hér á síðustu árum. Nú er samstarf þessara þriggja flokka orðið að slíkri trúðasýningu og í slíkum henglum að það er eiginlega rangnefni að kalla þetta ríkisstjórn,“ sagði Jóhann Páll.
Hann sagði fá stjórnarmál rata inn í þingið og að flest stærri málin væru fyrir fram dauð samkvæmt yfirlýsingum ráðherranna sjálfra.
Þá sagði hann ríkisstjórnina ætla að hanga saman fram yfir 25. janúar, en þá munu flokkarnir taka við ríkisstyrkjum samkvæmt þingstyrk og hleypur sá stuðningur á tugum og hundruðum milljóna.
„Þau ætla að leggja enn einn veturinn á þjóðina, enn einn veturinn þar sem tiltekt í ríkisrekstrinum er slegið á frest, enn einn veturinn þar sem ekki er tekið á brýnum verkefnum í velferðarmálum, samgöngumálum, löggæslumálum, orkumálum, þar sem þröngir sérhagsmunir þriggja þreytulegra stjórnmálaflokka eru teknir fram yfir hagsmuni þjóðar,“ sagði Jóhann Páll um ríkisstjórnina.