Fengu kallið á föstudagskvöldi

Svona líta valkyrjur nútímans út. Þær María Fanndal Birkisdóttir, Ásta …
Svona líta valkyrjur nútímans út. Þær María Fanndal Birkisdóttir, Ásta Þóra Ólafsdóttir, Iðunn Ása Óladóttir og Ísey Gréta Þorgrímsdóttir létu sig ekki muna um að synda yfir Ermarsundið og verða þar með fámennasta íslenska boðsundsveitin sem þá þrekraun hefur þreytt. Ljósmynd/Aðsend

„Við fengum pláss á bátnum í janúar og þá var sett saman sveit með hraði,“ segir María Fanndal Birkisdóttir sem synti við fjórðu valkyrju yfir Ermarsundið 28. september í hópi sem kallar sig einmitt Valkyrjurnar en þær stöllur rituðu nöfn sín á spjöld sögu Ermarsundskappa þennan daginn með því að verða fámennasta íslenska boðsundsveit sem vitað sé til að þreytt hafi sundið fræga – 34 kílómetra í beinni línu en oftast lengra af völdum strauma.

„Við vorum fjórar sem komum saman í mars-apríl og undirbúningur hófst í apríl,“ heldur María áfram í viðtali sem hugsanlega markar annað merkilegt met þar sem viðmælandinn er staddur í lest í Hollandi og dettur með reglulegu millibili inn í jarðgöng með þeim afleiðingum að sambandið rofnar. Þar með er hér ekki ýkjalangt viðtal tekið í fjórum köflum – jafn mörgum og valkyrjurnar sem skipa samnefnda sveit.

Ofan á allt annað þurftu þær stöllur, María, Ásta Þóra Ólafsdóttir, Iðunn Ása Óladóttir og Ísey Gréta Þorgrímsdóttir – manneskjan með eina rétta nafnið fyrir metnaðarfullar Ermarsundskonur ofan af Íslandi – að sýna fram á getu sína til að dvelja í miskunnarlausum kulda hafsins með svokölluðu vottunarsundi sem gengur út á að halda sig í tvær klukkustundir í vatni undir 15,5 gráðum, „og við gerðum það í Nauthólsvík í 11 gráðum“, segir María án þess að blikna.

Sambandið rofnar...

„Já, sæll aftur,“ segir María eftir fyrstu göng viðtalsins en heldur frásögn sinni ótrauð áfram. „Það blés frekar mikið,“ segir hún og svarar því aðspurð að vottunarbærir aðilar fylgist með vottunarsundinu. „Svo vorum við duglegar að æfa í sjónum á ýmsum stöðum og fengum bát og skipstjóra heima á Íslandi sem fór með okkur út á sjó þar sem við fengum að æfa við raunverulegar aðstæður,“ heldur valkyrjan áfram.

Þessa leið syntu Valkyrjurnar að straumum meðreiknuðum.
Þessa leið syntu Valkyrjurnar að straumum meðreiknuðum. Skjáskot/Aðsent

Þær héldu svo út til Bretlands 20. september og héldu þar til í rúma viku fyrir sundið. „Við vorum með fyrsta sundrétt sem svo kallast,“ segir hún og vísar í þá reglu að ein sveit hefur fyrsta sundrétt, sú næsta annan sundrétt og svo framvegis og þar er ekki um neina heita rétti að ræða heldur réttinn til að synda yfir sjálft Ermarsundið í ísköldum sjó. Hvað fær venjulegt fólk til að leggja slíkt á sig verður ekki greint í þessu viðtali en vitað er að fjöldi Íslendinga nýtur þess að öðlast núvitund og gleyma daglegum áhyggjum lífsins með því að gefa sig Ægi á vald.

„Við fengum kallið á föstudagskvöldi og gátum farið út á laugardagsmorgni,“ segir María, þannig virkar fyrsti sundréttur. Þeirra sveit er boðið fyrst að fara, forfallist þær er sveitinni á öðrum sundrétti boðið og svo framvegis. „Bíddu, nú er ég aftur að fara í göng,“ nær María að koma frá sér.

Sambandið rofnar öðru sinni...

„Heyrirðu í mér?“ spyr María eftir göng númer tvö og fær jáyrði. Hún er spurð hvernig sundið hafi þá gengið, aldrei að vita hvenær þriðju göngin gleypa hana. „Það gekk rosalega vel, í upphafi var spáð smá vindi en þetta var ágætt. Ég byrjaði sundið og maður varð alveg var við öldugang en maður sá hann eiginlega betur þegar maður var um borð í bátnum,“ segir sundgarpurinn frá.

„Ein okkar varð sjóveik einu sinni en jafnaði sig fljótt,“ heldur hún áfram en þær Valkyrjur syntu þrjár umferðir, hver þeirra synti í klukkutíma og alltaf í sömu röð. „Ég fór svo út í fjórða skiptið og var svo heppin að ég byrjaði og endaði sundið,“ segir María.

Allt í grænum sjó, ófrumlegur myndatexti sem aðstæður krefjast þó …
Allt í grænum sjó, ófrumlegur myndatexti sem aðstæður krefjast þó hálfpartinn. Ljósmynd/Aðsend

Til að ljúka sundinu þarf að fara upp úr sjónum á þurrt land Frakklandsmegin svo sundinu teljist lokið. Þetta var mjög grýtt strönd, mikið af grjóti, en tilfinningin var ótrúleg,“ nær María að koma frá sér áður en rödd hennar deyr út þriðja sinni í þriðju göngunum. Nýtt met í uppsiglingu – kaflaskiptasta viðtal Íslendings í Hollandi við fjölmiðil á Íslandi.

Sambandið rofnar í þriðja sinn...

Nú er María hins vegar orðin þaulvön göngum Hollands, hringir til baka og heldur viðtalinu áfram formálalaust. „Það var hins vegar komið myrkur þegar við komum í mark en tilfinningin var ótrúleg að klára þetta,“ segir hún af hjartans sannfæringu, „þetta var bara alveg magnað.“

En hverjar eru þessar fjórar konur sem lögðu þessa þrekraun á sig?

„Við erum að synda saman í Görpunum hjá Breiðabliki og við erum bara fjórar konur sem höfum áhuga á sjósundi og höfðum verið að velta þessu fyrir okkur í eitt-tvö ár og kastað þessu fram hvort við ættum að gera þetta. Það er rosalega löng bið í að komast í þetta, alveg tvö-þrjú ár, en við vorum heppnar, hringdum í skipstjórann í janúar og hann sagði okkur að þá hefði akkúrat verið að losna pláss, þetta var þvílík heppni,“ rifjar María upp.

Glæsilegur árangur fámennrar íslenskrar boðsundsveitar sem sýndi og sannaði að …
Glæsilegur árangur fámennrar íslenskrar boðsundsveitar sem sýndi og sannaði að draumar geta ræst. Syndaselirnir María og stöllur rúlluðu Ermarsundinu upp 28. september. Ljósmynd/Aðsend

Og hvaða tilfinningar skilur þetta eftir sig, hvernig líður þér eftir að hafa afrekað þetta?

„Þetta er bara sigurtilfinning, vellíðan, gleði og hamingja. Við erum samheldinn hópur og vináttan er mikil. Manni finnst maður bara vera óstöðvandi,“ segir María Fanndal Birkisdóttir að lokum og lýkur viðtalinu með dillandi hlátri, snúnum hamingju sigri hrósandi valkyrju sem skorað hefur sjálfa sig, áskoranir sínar og drauma á hólm og haft sigur á efsta degi, áður en hún hverfur líkast til ofan í fjórðu hollensku göngin. En það er önnur saga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert