Hildur: „Hefur þá auðvitað áhrif á samstarfið“

Óli Björn segir þolinmæði sína komna að þrotum. Hildur segir …
Óli Björn segir þolinmæði sína komna að þrotum. Hildur segir að skrif hans endurspegli skoðun margra sjálfstæðismanna. Samsett mynd

Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst skilja skrif Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Óli Björn skrifaði grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann segir útilokað að réttlæta samstarf með Vinstri grænum.

Seg­ir Óli að Vinstri græn­ hafi í raun bundið enda á stjórn­ar­sam­starfið og vís­ar þar til álykt­un­ar sem samþykkt var á lands­fundi VG um liðna helgi.

„En nú er langlundargeð mitt endanlega þrotið. Framganga Vinstri grænna er með þeim hætti að útilokað er að réttlæta samstarf við þá í ríkisstjórn,“ skrifaði hann.

Hildur skilur skrifin vel

Innt eftir viðbrögðum segir Hildur í samtali við mbl.is:

„Ég skil vel þessi skrif og held að þetta endurspegli það sem margir sjálfstæðismenn eru að hugsa og það skiljanlega. Minn góði vinur Óli Björn hefur löngum verið samviska flokksins og gefið engan afslátt í sínum góðu skrifum þó þau séu auðvitað fyrst og fremst frá eigin brjósti.

Ég tek undir þungann í orðum hans þó ég taki ekki jafn djúpt í árinni og hann varðandi áhyggjur af ályktunum annarra flokka og þar sem ég er alls ekki í VG ætla ég ekki að hafa miklar skoðanir á þeirri ályktun þó þar hafi verið margt mikil furða,“ segir Hildur.

Hún segir að formenn stjórnarflokkanna séu í samræðum um þau mál sem eru brýnust og ríkisstjórnin getur klárað. Hún vísar á formennina um viðbrögð við því hvernig þær samræður gangi.

Alls konar skoðanir í þingflokknum

Hún tekur þó fram, varðandi ríkisstjórnina, að það séu málefnin sem skipti mestu máli.

Eru fleiri þingmenn í þingflokki Sjálfstæðisflokknum sem vilja slíta stjórnarsamstarfinu?

„Það eru auðvitað alls konar skoðanir í þinghópi Sjálfstæðismanna um þessa stöðu, sem er um margt þung. En eins og ég ítreka, ég hef ekki heyrt annað en að það sé heilt yfir fókus hvort við munum ná að klára málin eða ekki og um það snýst þessi aðalspurning og nýja staða með formanni VG,“ svarar hún.

Í grein í blaðinu í dag seg­ir Óli að Vinstri græn­ir hafi í raun bundið enda á stjórn­ar­sam­starfið og vís­ar þar til álykt­un­ar sem samþykkt var á lands­fundi VG um liðna helgi.

Eðlilegra hefði Svandís rætt við hina formennina

Svandís Svavarsdóttir, nýkjörinn formaður Vinstri grænna, sagði í samtali við mbl.is um helgina:

„Ég hef sagt að það skuli stefnt að því að það verði kosið með vor­inu.”

Finnst þér eðlilegt að formaður í ríkisstjórn skuli stíga fram og segja svona án þess að vera búinn að ræða við hina formennina?

„Það er þá hennar skoðun sem hefur þá auðvitað áhrif á samstarfið. Ég held að það segi sig sjálft og hefði fyrir mitt leyti talið eðlilegra að það myndi eiga sér stað samtal þeirra á milli. En Svandís verður auðvitað að ákveða fyrir sitt leyti hvernig hún vilji haga sinni pólitík,“ segir Hildur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert