Hópur íbúa hyggst yfirgefa Grímsey

Sjávarútvegur er aðalatvinnuvegur Grímseyinga.
Sjávarútvegur er aðalatvinnuvegur Grímseyinga. mbl.is/Sigurður Bogi

Verulegrar óánægju gætir meðal Grímseyinga og hyggjast margir þeirra flytja á brott. Fjórar fjölskyldur auglýstu í gær hús sín til sölu.

Það gerðu þær eftir að ljóst varð að ríkið og Byggðastofnun myndu ekki veita undanþágu frá vinnsluskyldu vegna þess byggðakvóta sem útgerðir hafa fengið úthlutað. Telja nokkrir íbúar algjöran forsendubrest fyrir byggð í eyjunni.

Fiskveiðar hafa verið mikilvægasta atvinnugreinin í Grímsey frá upphafi. Fiskmiðin þar eru gjöful en byggð hefur verið í eynni frá landnámi.

Ekkert nema bara að negla fyrir gluggana

Fjöldi íbúa hefur að jafnaði verið um 90 til 100 undanfarna áratugi en þeim hefur þó fækkað á síðustu árum.

Í byrjun árs voru íbúarnir 57 talsins, samkvæmt tölum Hagstofunnar, en tæplega helmingur þeirra er með fasta búsetu þar yfir vetrartímann, og þá aðallega sjómenn.

„Nú hefur verið tekin ákvörðun um það að það á ekkert að hjálpa okkur, þannig það er ekkert nema bara að negla fyrir glugga hérna og koma sér í burtu,“ segir Jóhannes Henningsson, sjómaður í Grímsey, í samtali við mbl.is.

Hér má sjá Grímsey. Byggðin er vestan til þar sem …
Hér má sjá Grímsey. Byggðin er vestan til þar sem eyjan er lægri. mbl.is/Sigurður Bogi

Skólastarf lagt niður fyrir fimm árum

Árið 2009 sameinaðist Grímseyjarhreppur Akureyrarkaupstað. Skólastarf í eyjunni lagðist svo af veturinn 2019 og urðu börn því að sækja nám á Akureyri eða Dalvík.

Árið 2015 hófst byggðaþróunarverkefnið Glæðum Grímsey. Var það hluti af verkefninu Brothættar byggðir sem Byggðastofnun hefur umsjón með.

Fyrir tilstilli Glæðum Grímsey var sérstökum byggðakvóta úthlutað til útgerða í Grímsey sem nam ríflega 400 tonnum af þorskígildum. Er hann til viðbótar við almennan byggðakvóta.

Krafa er gerð um að fiskurinn sé verkaður á staðnum en Grímseyingar hafa síðastliðin sex ár verið undanþegnir þeirri skyldu. 

Landaður afli er í stað þess fluttur í land til vinnslu.

Undanþága fékkst ekki

Um mánaðamótin ágúst/september rann út síðasta kvótaár og sömuleiðis það tímabil sem útgerðirnar voru undanþegnar vinnsluskyldunni. 

Útgerðirnar í Grímsey sóttu um sérstakan byggðakvóta á ný og sömuleiðis undanþágu frá vinnsluskyldunni. Í ágúst var þeim gert ljóst að ólíklegt yrði að ríkið og Byggðastofnun gætu orðið að ósk þeirra.

Í gær var Grímseyingum svo tilkynnt að lokaniðurstaða lægi fyrir, þeir væru ekki undanþegnir. Fjórar fjölskyldur auglýstu í kjölfarið húsin sín til sölu.

Jóhannes Henningsson býr í Grímsey og ræddi við mbl.is í …
Jóhannes Henningsson býr í Grímsey og ræddi við mbl.is í dag. mbl.is/Sigurður Bogi

Ríkið hljóti að kaupa eignirnar

Jóhannes Henningsson, sjómaður í Grímsey, er einn þeirra sem hyggjast flytja burt. Telur hann að ákvörðun ríkisins og Byggðastofnunar um að veita Grímseyingum ekki undanþágu verði til þess að byggð í eynni leggist af.

„Ég geri bara fastlega ráð fyrir því að ráðamenn séu farnir í að skoða þá vinnu að kaupa upp eignir. Það liggur í hlutarins eðli. Ég get ekki ímyndað mér annað,“ segir hann.

„Það er alla vega búið að skýra það út fyrir þeim að þetta henti okkur ekki á neinn hátt. Að menn hafi ekki bolmagn í það, þessar fáu hræður hér.“

Þið eruð að spá í að flytja?

„Ef þetta verður svona þá liggur ekkert annað fyrir. Það er ekki mjög flókið dæmi,“ segir Jóhannes og heldur áfram:

„Það er búið að reyna allt sem er. Akureyrarbær er búinn að reyna að aðstoða okkur við að koma og ræða við þetta fólk. Við erum búin að vera á endalausum fundum. Seint í sumar þá er þessu slengt fram – að það verði breytingar, samkvæmt einhverjum breyttum reglugerðum, að það yrði að verka aflann á staðnum. Það yrði hvergi kvikað frá því. Það voru sendar inn einhverjar umsóknir sem þyrfti að svara eftir viku eða tíu daga. Menn ætluðu að starta fiskvinnslu en svo eftir nánari skoðun þá kom í ljós að þeim hugnaðist það ekki. Það sé ekki raunhæft.“

Borgar sig engan veginn

Bjarni Magnússon, sjómaður í Grímsey, segir það ekki standa undir kostnaði að opna fiskverkun á eynni.

Tekur hann undir með Jóhannesi og segir líklegt að byggðin leggist af ef ákvörðun ríkisins og Byggðastofnun stendur óhögguð.

Hann er ekki einn þeirra sem hafa sett hús sín á sölu en segir óvissu ríkja um framhaldið.

„Það borgar sig engan veginn að vinna fisk hérna út af bara landfræðilegum ástæðum, brjálæðislegur tilkostnaður á frakt hérna fram og til baka til dæmis. Það eru þónokkur ár síðan við hættum að verka fisk hér. Þessi ákvörðun verður mjög líklega til þess að það leggst af byggð hérna mjög fljótlega,“ segir Bjarni.

Ekkert grín að erfa ekki útgerð

„Ég og sambýliskona mín erum 25 og 26 ára. Við erum yngsta parið sem býr hér allt árið. Við erum að horfa fram á það að við þurfum að fara héðan, selja húsið okkar og flytja ef þetta verður svona. Þetta hefur verið það sem heldur lífinu í plássinu undanfarin ár,“ segir hann.

„Mín útgerð hefur ekki haft þessa úthlutun undanfarin ár og þetta var það sem þurfti til þess að geta verið hér áfram. Það er ekkert grín að vera ungur, erfa ekki útgerð og vera að reyna þetta. Ég byrjaði frá grunni fyrir fjórum árum síðan. Þetta er fyrir alla – útgerðirnar hætta ef við missum þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert