Vinnsla persónuupplýsinga hjá Sjóvá ófullnægjandi

Persónuvernd fór í frumkvæðisathugun hjá fjórum tryggingafélögum.
Persónuvernd fór í frumkvæðisathugun hjá fjórum tryggingafélögum.

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla persónuupplýsinga hjá Sjóvá sem fer fram í tengslum við sjálfvirka ákvarðanatöku um umsóknir og óskir einstaklinga um tilboð í líf- og sjúkdómatryggingar samræmist ekki ákvæðum laga um persónuvernd, vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð ESB um vinnsluheimildir. 

Niðurstaðan byggir á því að í lok umsóknarferlis samþykki umsækjendur vinnslu persónuupplýsinga og að þeir hafi kynnt sér hvernig persónuvernd er tryggð hjá félaginu. Að mati persónuverndar kemur hvergi fram með skýrum hætti að ákvörðun um hvort trygging verði gefin út og á hvaða verði, fari fram með sjálfvirkri ákvarðanatöku. 

„Að mati Persónuverndar telst slík samþykkisyfirlýsing ekki uppfylla skilyrði 10. gr. laga nr. 90/2018, sbr. og skilyrði 7. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, um að teljast upplýst og ótvíræð viljayfirlýsing hins skráða um að hann samþykki vinnslu persónuupplýsinga sinna,“ segir í úrskurðinum

Fyrirmæli voru gefin út fyrir Sjóvá að færa vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í tengslum við sjálfvirka ákvarðanatöku um ákvarðanatöku um útgáfu líf- og sjúkdómatrygginga í samræmi við lög nr. 90/2018 um persónuvernd og reglugerð ESB um vinnsluheimild. 

Tvö af fjórum brjóta ekki í bága við lög

Persónuvernd fór í frumkvæðisathugun hjá fjórum tryggingafélögum á Íslandi til að skoða vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í tengslum við sjálfvirka ákvarðanatöku um umsóknir og óskir einstaklinga um tilboð í tryggingar. 

Tryggingafélögin sem voru til skoðunar voru Sjóvá, TM, VÍS og Vörður.  

Engar athugasemdir voru gerðar við vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við sjálfvirka ákvarðanatöku um umsóknir og óskir einstaklinga um tilboð í líf- og sjúkdómatryggingar hjá Verði og VÍS. 

Ekki ljóst hvort reykingar leiði til álags á iðgjöld

Í úrskurði yfir tryggingafélaginu TM segir að vinnsla persónuupplýsinga um reykingar umsækjanda við útgáfu trygginga með álagi, samræmist ekki meginreglu laga um persónuvernd nr. 90/2018 og reglugerð ESB (2016/679) um lögmæta, sanngjarna og gagnsæja vinnslu persónuupplýsinga. 

Að mati Persónuverndar er ekki ljóst af útgefnum vátryggingaskírteinum að reykingar leiði til álags á iðgjöld trygginga. „Má viðskiptavini því ekki vera ljóst, hverju sinni, hvort reykingar leiði í raun til álags við útreikning iðgjalda hans og að hvaða marki.

Fyrirmæli voru gefin út fyrir TM að færa vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram í tengslum við sjálfvirka ákvarðanatöku um útgáfu líf- og sjúkdómatrygginga með álagi til samræmis við ofangreind lög. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert