„Ég hef séð engil“

„Ég hef séð engil, eða engillíka veru,“ upplýsti sjónvarpsmaðurinn og rithöfundurinn Jón Ársæll Þórðarson í viðtali í Dagmálum. Jón Ársæll er gestur þáttarins í tilefni af bók sem hann skrifaði og kemur í bókaverslanir á næstu dögum. Það er bókin Ég átti að heita Bjólfur. Ein af upprifjunum Jóns er sýn sem honum birtist á hótelherbergi á Spáni. Í Dagmálum segir hann frá þessari upplifun.

„Ég vaknaði upp um miðja nótt og sá engillíka veru standa yfir vöggu ungs sonar okkar,“ segir Jón og viðurkennir að hann hafi bæði orðið hræddur og glaður, líkt og smalarnir hér áður fyrr.

Tárvotir pílagrímar

Hann sá fyrir sér að ef hann hlypi niður í móttöku hótelsins og hrópaði „María, María,“ yrði hótelinu lokað og herbergið innsiglað sem kraftaverkaskrín. Fullar rútur af tárvotum pílagrímum myndu streyma að. Hann ákvað hins vegar að fara ekki niður í móttöku heldur sagði sínum nánustu frá þessari upplifun við morgunverðarborðið. „Það trúði mér enginn,“ staðhæfir hann.

Jón Ársæll er menntaður sálarfræðingur og á meðal annars að baki nokkurra ára vinnu við að rannsaka hið yfirskilvitlega. Hann segir djöfullinn ávallt nálægan og hann hefur komist í námunda við andskotann.

Jón Ársæll ræðir bókina sína, ferilinn og bardagann við Elli kerlingu sem honum finnst erfiður. Dagmál dagsins á menningarlegum og léttum nótum inn í helgina.

Hér með fylgir brot af frásögn Jóns á hótelherbergi 302 á Spáni, þegar engillinn vitjaði sonar hans. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur áskrifendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert