Ný skýrsla frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) sýnir að Ísland, Liechtenstein og Noregur eru í hættu á að uppfylla ekki nokkur af 2025 markmiðum um endurnotkun og endurvinnslu á heimilisúrgangi og markmið um endurvinnslu á umbúðaúrgangi.
EES löggjöf um úrgang felur í sér að ríki nái ákveðnum markmiðum um meðhöndlun úrgangs. Tvö helstu markmiðin fela í sér að ríki undirbúi til endurnotkunar eða endurvinni 55% af almennum heimilisúrgangi og endurvinni meira en 65% af heildarmagni umbúðaúrgangs fyrir árið 2025. Frekari efnisbundin markmið eru sett fyrir umbúðir úr gleri, járnmálmi, pappír, viði, pappa og plasti. Einnig er markmið um að draga úr urðun fyrir árið 2035.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.
Bent er á, að svokölluð viðvörunarskýrsla (e. Early Warning Report) meti líkurnar á að ríkin þrjú nái þeim markmiðum sem þau hafa gengist undir samkvæmt EES-samningnum sem varða endurnotkun og endurvinnslu á heimilis- og umbúðaúrgangi.
„Heimilisúrgangur samanstendur af ýmsum úrgangi frá heimilum og öðrum. Með umbúðaúrgangi er átt við efni sem notað er til að geyma vörur. Skýrslan hefur það að leiðarljósi að greina vankanta og mögulegar aðgerðir til að bæta frammistöðu ríkjanna í meðhöndlun úrgangs. Skýrslan inniheldur einnig frummat á framvindu ríkjanna í átt að markmiði um að draga úr urðun heimilisúrgangs fyrir árið 2035,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram, að skýrslan sýni að Noregi, Íslandi og Liechtenstein gangi sífellt betur að ná árangri í átt að markmiðunum sem sett hafi veirð um minnkun úrgangs fyrir árið 2025.
„Hins vegar eru öll þrjú EES EFTA-ríkin í hættu á að ná ekki að minnsta kosti einu af markmiðunum. Frekari aðgerðir eru því nauðsynlegar til að auka endurvinnsluhlutfall ríkjanna fyrir lok árs 2025 og fram á við. Í skýrslunni eru nefnd dæmi um góðan árangur og lagðar fram úrbótatillögur fyrir öll þrjú ríkin.“
Enn fremur segir, að Ísland sé á góðri leið að ná markmiði um að endurvinna 25% af úrgangi úr viðarumbúðum fyrir árið 2025. Hins vegar sé hætt við að Ísland nái ekki markmiðunum fyrir árið 2025 að því er varði endurnýtingu og endurvinnslu 55% af heimilisúrgangi og endurvinnslu 65% af heildarmagni umbúðaúrgangs. Sama eigi við um sértæk markmið um að endurvinna 70% af umbúðaúrgangi úr járnmálmum, 70% af umbúðaúrgangi úr gleri og 50% af umbúðaúrgangi úr plasti.
„Þá er áhyggjuefni bilið á milli núverandi urðunarhlutfalls Íslands og markmiðsins um að urða að hámarki 10% af heimilisúrgangi sem fellur til fyrir árið 2035,“ segir í tilkynningunni.