Varaði safnið við að endurtaka klisjuna

Gísli Pálsson hefur gagnrýnt Náttúrugripasafnið í Kaupmannahöfn fyrir að skella …
Gísli Pálsson hefur gagnrýnt Náttúrugripasafnið í Kaupmannahöfn fyrir að skella skuldinni af útrýmingu geirfuglsins á íslenska veiðimenn. Safnið hefur nú brugðist við gagnrýninni og segir að hún leiði „ekki til sjálfkrafa breytinga“. Árni Sæberg

„Ég hafði satt að segja varað safnið við að endurtaka þessa klisju,“ segir Gísli Pálsson mannfræðingur í viðtali við danska blaðið Information um sýningu í Náttúruminjasafninu í Kaupmannahöfn þar sem sérstaklega er fjallað um veiðina á síðasta geirfuglinum í Eldey árið 1844. Í blaðinu verst talsmaður safnsins gagnrýni Gísla og segir að hún sé ekki tilefni til að breyta framsetningunni á sýningunni.

Í framsetningu safnsins er þáttur Ketils Ketilssonar í að geirfuglinn dó út dreginn fram, en í raun hafi örlög tegundarinnar verið ráðin af græðgi danskra kaupmanna. Í viðtali við Hanne Viemose, mannfræðing og rithöfund, lýsir Gísli því að sér hafi verið brugðið þegar hann fór á sýninguna og við honum blasti stór mynd af Katli Ketilssyni og texti þar sem sagði að hann hefði verið einn þriggja veiðimanna, sem veiddu síðasta geirfuglinn.

Gísli segir að á þeim tíma hafi verið í tísku í náttúruvísindasöfnum, ekki síst í löndum nýlenduherra, að tefla því fram, sem fyrir væri að finna í nýlendum þeirra. Þáttur í því hefði verið að verða sér úti um uppstoppuð eintök dýra í útrýmingarhættu til að hafa til sýnis.

Útrýming geirfuglsins er meðal viðfangsefna sýningar í Náttúrugripasafninu í Kaupmannahöfn.
Útrýming geirfuglsins er meðal viðfangsefna sýningar í Náttúrugripasafninu í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Gísli Pálsson

„Það er bæði misvísandi hvað snertir sögu geirfuglsins og þá krafta sem voru á bak við útrýmingu hans, og að auki er þetta siðferðisleg spurning, höfum í huga afkomendur mannsins þegar slíkri skömm er varpað á nafn hans,“ hefur blaðið eftir Gísla.

Anne Katrine Gjerløff, upplýsingafulltrúi safnsins, sagði þegar Information leitaði svara að framsetning safnsins væri samantekt. „Þegar miðla á í styttu máli eins og þarf að gera í sýningartexta, verður oft útundan samhengi og smáatriði, sem sumir vilja meina að séu mikilvæg. Við völdum okkar framsetningu út frá því sem við töldum að hentaði breiðum markhópi sýningarinnar og sér í lagi út frá því hvað væri í mestu samræmi við heildarþema sýningarinnar,“ sagði Gjerløff. „Sagan um síðasta geirfuglaparið og Ketil Ketilsson er ein af 80 sögum á sýningunni og á henni eru 1500 munir til sýnis.“

Stór mynd af Katli Ketilssyni blasir við gestum sýningarinnar. Gísli …
Stór mynd af Katli Ketilssyni blasir við gestum sýningarinnar. Gísli Pálsson gagnrýnir að hans hlutur í útrýmingu geirfuglsins sé dreginn fram með þessum hætti í stað þess að leggja áherslu á hina raunverulegu krafta á bak við tortímingu tegundarinnar. Safnið segir að ekki sé ástæða til að breyta þessari áherslu þrátt fyrir gagnrýnina. Ljósmynd/Gísli Pálsson

 

Viemose bendir Gjerløff á að gagnrýnin snúist ekki um að samantektin á sýningunni sé of stutt, heldur fái sýningargestir villandi sýn á sögu fuglsins.

„Okkur finnst náttúrulega ergilegt að textinn geti virkað misvísandi. Við höfðum einmitt óskað okkur að draga fram blæbrigði í frásögninni um hina „samviskulausu veiðimenn“. Við skrifum að kaupmenn í Reykjavík hafi pantað fuglana. Þeir hafi síðan verið seldir manni að nafni Chr. Hansen, sem seldi þá áfram og þeir hafi síðan endað í safninu í Kaupmannahöfn eftir óþekktum leiðum. Mikil og flókin nýlendusaga býr að baki bæði útrýmingu geirfuglsins og annarra dýrategunda. Við erum í raun þeirrar hyggju að það sé saga sem eigi skilið mun yfirgripsmeiri umfjuöllun, en það var ekki sýningarmarkmiðið í þessari lotu.“

Gjerløff kveðst ekki geta fallist á þá gagnrýni Gísla að það hvernig útrýmingu geirfuglsins sé stillt upp á sýningunni beri vitni leifanna af danskri nýlenduhyggju. 

„Það finnst okkur ekki,“ segir hún þegar hún er spurð hvort sýningin sé í anda danskrar nýlendustefnu. „En við erum meðvituð um að það er sjaldan hægt að sjá fyrir hvernig hvernig allir gestir á sýningu muni skilja texta og samhengi þeirra. Við fögnum spurningunni því að hún knýr okkur til að halda áfram að huga að því hvernig við getum gert miðlun okkar enn betri. Að því sögðu leiðir gagnrýni ekki til sjálfkrafa breytinga.“

Fjallað var um gagnrýni Gísla á safnið í viðtali við hann í Morgunblaðinu um miðjan september. Þar kom fram að hann hefði verið safninu innan handar þegar verið var að setja sýninguna upp, en ekki hefði verið hlustað á ráðleggingar hans. Honum hefði verið brugðið þegar hann sá sýninguna og látið safnið vita, en engin viðbrögð fengið.

Gísli skrifaði bókina Fuglinn sem gat ekki flogið. Þar rekur hann sögu og afdrif geirfuglsins og aldauða hans af mannavöldum. Ensk útgáfa bókarinnar kom út fyrr á þessu ári. Hún nefnist í enskri þýðingu The Last of Its Kind og hefur verið tilnefnd til virtra verðlauna fyrir skrif um vísindi, The Royal Society Trivedi Science Book Prize.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert