„Það er alltaf aðdragandi að öllu, það segir sig sjálft,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, prófessor við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is spurð um atburðarás dagsins.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, greindi frá því á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu í dag að ríkisstjórnarsamstarfinu væri lokið og að hann myndi leggja til við forseta Íslands að rjúfa þing.
„Þegar Svandís Svavarsdóttir býður sig fram til formanns þá lætur hún þess getið að það eigi að stefna að kosningum í vor og að það sé komið gott í útlendingamálunum og gefur boltann,“ segir Stefanía.
Hún segir að harður baráttuandi hafi verið á landsfundi Vinstri grænna þegar Svandís var kjörin formaður.
„En sagan er auðvitað lengri en þetta,“ segir Stefanía. Á síðasta ári hafi gætt mikillar óþreyju í þingflokki Sjálfstæðisflokksins með ríkisstjórnarsamstarfið.
„Það var einkum og sér í lagi Jón Gunnarsson sem var mjög ósáttur og um það leyti sem hann hætti sem dómsmálaráðherra þá fór hann í ýmsa þætti þar sem hann lýsti yfir óánægju með samstarfið og það varðaði útlendingamál og lögreglumál.“
En auk hans voru fleiri sem ræddu um kyrrstöðu í virkjanamálum.
Stefanía nefnir einnig hvalveiðimálið árið 2023 þegar Svandís þáverandi matvælaráðherra kom í veg fyrir að Hvalur hf. gæti stundað hvalveiðar.
„Það var mjög eldfimt mál og stefndi í að það yrði lögð fram vantrauststillaga á Svandísi eftir að það kom álit frá umboðsmanni Alþingis en það kom ekki til þess vegna veikinda. Svo lék Bjarkey [matvælaráðherra] ekki sama leik í sumar en dró mál þannig að það var heldur ekki hægt að veiða hvali í sumar.“
Stefanía segir að þetta hafi verið eins og olía á eldinn í röðum Sjálfstæðisflokksins og ákveðinn hópur í þingflokknum ósáttur með ríkisstjórnarsamstarfið í nokkurn tíma.
„Það slökknaði aðeins í þessum óánægjuröddum þegar Bjarni tekur við forsætisráðherraembættinu eftir að Katrín segir af sér og kveður stjórnmálin. Það er annar mjög stór vendipunktur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Það má í raun segja að stjórnin hafi ekki lifað það. Það í raun sýnir sig að þessi línudans sem hafði verið leikinn í mörg ár undir forystu Katrínar gekk ekki lengur upp,“ segir Stefanía.
Þá nefnir Stefanía að fylgistölur stjórnarflokkanna hafi einnig valdið titringi í ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Ef það á að kjósa í lok nóvember þá, eins og Bjarni sagði, annað hvort heldur ríkisstjórnin áfram til kosninga. Ef einhver stjórnarflokkanna vill það ekki þá er skipuð starfstjórn sem starfar fram að kosningum,“ segir Stefanía.
„Segjum að VG fari í burtu núna og hætti í stjórninni þá væri ein leið að einhver flokkur myndi verja þessa ríkisstjórn vantrausti fram að kosningum sem einhvers konar minnihlutastjórn.“
„Það var lengi vel talið útilokað að Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn gætu verið saman í ríkisstjórn og þegar ríkisstjórnin var mynduð þá voru óánægjuraddir í VG sem töldu þetta alveg útilokað en maður heyrði minna af þessu í Sjálfstæðisflokknum,“ segir Stefanía.
„Við höfum tekið eftir því að það er áberandi í röðum Sjálfstæðismanna alveg frá 2023 undirliggjandi óánægja og uppi efasemdir í þingflokknum. Óli Björn Kárason hafði verið gagnrýninn og var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins en hætti í fyrrahaust og hefur sjálfur sagt að það hafi verið út af þessum efasemdum um stjórnarsamstarfið.“
Þá segir Stefanía ýmislegt hafa verið á huldu um framtíð Bjarna Benediktssonar í stjórnmálum og einhverjar raddir um að hann væri að fara kveðja stjórnmálin.
„Nú með því að boða til kosninga eftir örfáar vikur er ljóst að hann mun leiða flokkinn inn í kosningar og hefur skapað nýja stöðu fyrir sig og flokkinn.“
Aðspurð segir Stefanía að dæmi séu um að kosningum hafi verið flýtt og nefnir kosningarnar árið 2016 í kjölfar þess að Sigmundur Davíð sagði af sér embætti forsætisráðherra.
„Þegar Sigurður Ingi tekur við sem forsætisráðherra þá gera þeir Bjarni Benediktsson samkomulag um að flýta kosningum og hafa þær í október en það var sameiginleg ákvörðun.“
Stefanía nefnir dæmi um ríkisstjórnir sem hafa setið nokkur kjörtímabil.
„Ríkisstjórnartímabil Davíðs Oddsonar og síðan Geirs Haarde árin 1995 til 2007 var langt. Það var líka langt ríkisstjórnartímabil frá 1959 til 1971 en að öðru leyti hafa ríkisstjórnir setið kjörtímabilið eða skemur,“ segir Stefanía.
Hún segir ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur vera merkilega fyrir þær sakir að það sé fyrsta þriggja flokka ríkisstjórnin sem situr lengur en eitt kjörtímabil.
„Við höfum haft tímabil með stöðugleika, sem þetta tímabil var, við getum sagt það árin 2017 til 2024. Svo stöðugleikinn 1995 til 2007 og svo þurfum við að fara aftur til 1959 til 1971 til að finna annað viðlíka tímabil. Ef við förum enn lengra þá er það tímabilið 1950 til 1956.“