Fjölmennt er í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem aðalmeðferð í ellefu riftunar- og skaðabótamálum gegn stjórnendum WOW air og tryggingafélögum hófst klukkan hálf níu.
Á meðal þeirra sem eru mætt í dómsal eru Skúli Mogensen, stofnandi og forstjóri WOW air og núverandi eigandi sjóbaðanna í Hvammsvík, og Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri Bioeffect.
Skjöl málsins mátti sjá í stórum bunkum nærri þeim tíu lögmönnum sem eru í dómsal.
Málin eiga sér langan aðdraganda en þau snúa öll að greiðslum sem áttu sér stað fyrir gjaldþrot WOW air í mars 2019.
Farið er fram á riftun greiðslna til kröfuhafa og að forstjóri eða stjórnendur séu dæmdir til greiðslu skaðabóta sem samsvara fjárhæð riftunarinnar, þ.e.a.s. hátt í tveir milljarðar.
Umræddir stjórnendur eru auk Skúla og Liv, Helga Hlín Hákonardóttir og Davíð Másson stjórnarmenn. Þá eru Eurocontrol, DUAL Corporate Risks Limited, Liberty Mutual Insurance Europe Limited, Everest Syndicate 2786 at Lloyd’s og Everest Syndicate, Hardy Syndicate 382 at Lloyd’s og QBE UK Limited einnig stefnt.
Skýrslutaka yfir Skúla fer fram í dag og þá er áætlað að skýrslutökum verði haldið áfram næstu fjóra daga. Á föstudaginn mun málflutningur hefjast fyrir fyrsta málið og halda áfram næstu vikurnar fyrir öll hin tíu.
Greint verður frá skýrslutöku yfir Skúla á mbl.is síðar í dag.