Skúli mættur í dómsal

Skúli Mogensen í dómsal í morgun.
Skúli Mogensen í dómsal í morgun. mbl.is/Karítas

Fjölmennt er í sal 101 í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag þar sem aðalmeðferð í ellefu riftunar- og skaðabótamálum gegn stjórnendum WOW air og tryggingafélögum hófst klukkan hálf níu.

Á meðal þeirra sem eru mætt í dómsal eru Skúli Mo­gensen, stofn­andi og for­stjóri WOW air og núverandi eigandi sjóbaðanna í Hvammsvík, og Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður og núverandi forstjóri Bioeffect. 

Skjöl málsins mátti sjá í stórum bunkum nærri þeim tíu lögmönnum sem eru í dómsal.

Gögn málsins eru þúsundir blaðsíðna.
Gögn málsins eru þúsundir blaðsíðna. mbl.is/Karítas

Mál­in eiga sér langan aðdraganda en þau snúa öll að greiðslum sem áttu sér stað fyr­ir gjaldþrot WOW air í mars 2019.

Farið er fram á rift­un greiðslna til kröfu­hafa og að for­stjóri eða stjórnendur séu dæmd­ir til greiðslu skaðabóta sem sam­svara fjár­hæð rift­un­ar­inn­ar, þ.e.a.s. hátt í tveir milljarðar.

Um­rædd­ir stjórn­end­ur eru auk Skúla og Liv, Helga Hlín Há­kon­ar­dótt­ir og Davíð Más­son stjórn­ar­menn. Þá eru Eurocontrol, DUAL Corporate Risks Lim­ited, Li­berty Mutual Ins­urance Europe Lim­ited, Ev­erest Syndica­te 2786 at Lloyd’s og Ev­erest Syndica­te, Har­dy Syndica­te 382 at Lloyd’s og QBE UK Lim­ited einnig stefnt.

Skýrslutaka yfir Skúla fer fram í dag og þá er áætlað að skýrslutökum verði haldið áfram næstu fjóra daga. Á föstudaginn mun málflutningur hefjast fyrir fyrsta málið og halda áfram næstu vikurnar fyrir öll hin tíu.

Greint verður frá skýrslutöku yfir Skúla á mbl.is síðar í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert