„Ekkert barn á að þurfa að ganga í gegnum svona lagað“

Til stendur að senda hinn kólumbíska Oscars Andres Florez Bocanegra …
Til stendur að senda hinn kólumbíska Oscars Andres Florez Bocanegra úr landi í dag en óeinkennisklæddir lögregluþjónar sóttu hann inn á salerni í skólanum í gær. Ljósmynd/Aðsend

„Ég reyni að halda haus fyrir hann, skítt með mína líðan en ekkert barn á að þurfa að ganga í gegnum svona lagað. Hann stígur fram og segir frá ofbeldi. Þetta eru þakkirnar sem hann fær,“ segir Sonja Magnúsdóttir í samtali við mbl.is um mál Oscars Andres Florez Bocanegra, kólumbíska drengsins sem íslensk yfirvöld hyggjast senda úr landi í dag og lögreglumenn sóttu inn á salerni Flensborgarskólans í gær.

Oscar er ekki farinn úr landi, þetta staðfesti Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður og réttargæslumaður Oscars, við mbl.is nú rétt í þessu.

„Hann ætlar að hengja sig strax og hann kemur til Kólumbíu, á flugvellinum þar, þetta hefur hann sagt vinum sínum og þeir sagt það sínum mæðrum,“ bætir Sonja við.

Eins og fram kom í viðtali hér á vefnum í gær hefur Oscar verið búsettur hjá Sonju og fjölskyldu hennar og kallar hana íslensku móðurina sína. Sonja hefur þó ekkert formlegt forræði yfir drengnum, en fékk samþykki barnaverndaryfirvalda fyrir því að drengurinn byggi á heimili hennar vegna ofbeldisfulls föður sem einnig stendur til að vísa úr landi.

Fær ekki að hitta Oscar

„Hann er búinn að vera einn í herbergi síðan í gærmorgun með áfallastreitu og mikinn kvíða, skelfingu lostinn og alveg að bugast,“ segir Sonja sem hefur verið í sambandi við drenginn í alla nótt en honum leyfist að hafa síma sinn í prísund sinni.

Verst þykir Sonju að fá ekki að hitta drenginn sem hefur verið henni sem sonur og búið mánuðum saman á heimili hennar.

„Ég hef ekki þá stöðu í lagalegum skilningi og engir lagalegir pappírar hafa verið undirritaðir um að ég sé að gæta hans þótt ég sé búin að gera það í næstum hálft ár með samþykki barnaverndar, lögreglunnar og Útlendingastofnunar, og vitneskju þeirra,“ segir hún.

Embætti land­lækn­is bend­ir á að mik­il­vægt sé að þeir sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir segi ein­hverj­um frá líðan sinni, hvort sem er aðstand­anda eða hafi sam­band við Hjálp­arsíma Rauða kross­ins 1717, eða á net­spjalli 1717.is, við hjúkr­un­ar­fræðing í net­spjalli á heilsu­vera.is eða við ráðgjafa í síma Píeta-sam­tak­anna s. 552-2218. Píeta-sam­tök­in bjóða einnig upp á ráðgjöf og stuðning fyr­ir aðstand­end­ur þeirra sem glíma við sjálfs­vígs­hugs­an­ir.

Fyr­ir þau sem misst hafa ást­vin í sjálfs­vígi bend­ir land­læknisembættið á stuðning í sorg hjá Sorg­armiðstöðinni í síma 551-4141 og hjá Píeta-sam­tök­un­um í síma 552-2218.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert