Kannanir skipta litlu máli: Nýr leikur hafinn

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, segir aðspurður að ástæða þess að hið svokallaða óánægjufylgi Sjálfstæðismanna hafi ekki farið til flokksins líkt og tilfellið er með Miðflokkinn, vera það að slíkt fylgi hafi þegar verið komið til flokksins.

Hins vegar telur hann að kannanir undanfarin misseri skipti litlu máli og að nýr leikur sé hafinn í aðdraganda kosninga.

„Við höfum upplifað stíganda í könnunum og meðbyr í starfi flokksins. Við erum að uppskera það sem við höfum talað fyrir sömu hlutina allt kjörtímabilið. Við viljum ekki svona háa vexti og verðbólgu og treystum okkur í alvarlegar aðgerðir þegar kemur að þeim málum. Við erum með hægri flokk sem valdi þetta samstarf í sjö ár þrátt fyrir að möguleikar væru á öðru. Þannig hefur þetta kjörtímabil farið,“ segir Sigmar.

„Buddan“ verður aðal kosningamálið 

Hann segir flotið til Viðreisnar frá Sjálfstæðisflokki þegar hafa gerst þegar flokkurinn var stofnaður. Hins vegar megi ekki festa sig í því sem kannanir síðustu misseri hafa borið með sér. Þær hafi takmarkað forspárgildi.

„Fólk á endanum kýs út frá buddunni sinni. Hvernig heimilið hefur það. Hvernig er andleg líðan barnanna minna. Hvaða möguleika hef ég á að framfleyta mér og hvernig áætlanir get ég gert fram í tímann með húsnæðislánið mitt. Hverjir verða vextir og verðbólga. Þetta mun á endanum ráða úrslitum,“ segir Sigmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert