Úrskurður ógiltur: Fékk ekki fullnægjandi leiðbeiningar

Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur ógilt úrskurð kærunefndar útlendingamála þar sem kröfu um endurupptöku hælisleitanda var hafnað. Héraðsdómur segir m.a. að manninum hafi ekki verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar og það á móðurmáli hans. 

Ágreiningur aðila í málinu snerist að meginstefnu til um það hvort maðurinn bæri ábyrgð á þeim töfum sem urðu á framkvæmd flutnings hans úr landi.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 9. október en var birtur í dag, að það hafi ekki þótt réttmætt að leggja til grundvallar að maðurinn hafi borið ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki hafi orðið af flutningi hans úr landi innan 12 mánaða frests.

Hafði verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi

Maðurinn sótti um alþjóðlega vernd á Íslandi 10. október 2020. Útlendingastofnun hafnaði því að taka umsókn mannsins til efnismeðferðar með ákvörðun 17. desember sama ár, og skyldi honum vísað frá landinu.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur m.a. fram að maðurinn hafi við komuna til landsins framvísað vegabréfi og grísku dvalarleyfisskírteini. Samkvæmt Eurodac-skýrslu hafi manninum verið veitt alþjóðleg vernd í Grikklandi 20. desember 2018. Feli sú vernd í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi laga um útlendinga. Þá komi 42. gr. útlendingalaga að mati Útlendingastofnunar ekki í veg fyrir að stefnandi verði sendur aftur til Grikklands. 

Maðurinn skaut ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar Útlendingamála 4. janúar 2021. Þann 15. október sama ár barst kærunefndinni beiðni mannsins um endurupptöku á máli hans. 

Byggði maðurinn þá beiðni á því að 12 mánuðir væru liðnir frá umsókn hans og að tafir á meðferð málsins væru ekki á hans ábyrgð og af þeim sökum skyldi taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Þeirri beiðni var hafnað með úrskurði kærunefndar útlendingamála. 

Maðurinn óskaði enn á ný eftir að mál hans yrði endurupptekið hjá kærunefnd
útlendingamála 18. október 2022. Með úrskurði kærunefndarinnar, sem nú er krafist ógildingar á fyrir dómi, var þeirri beiðni hafnað.

Úrskurðurinn væri ólögmætur og ógildanlegur

Maðurinn byggði á því fyrir dómi að úrskurður kærunefndarinnar væri ólögmætur og ógildanlegur. Brotið hefði verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga, óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttarins og málsmeðferðarreglum útlendingalaga við meðferð málsins og ákvarðanatöku. Jafnframt hefði verið brotið gegn alþjóðlegum skuldbindingum og grundvallarmannréttindum mannsins, einkum leiðbeiningarreglu og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar. 

Íslenska ríkið taldi tafir á afgreiðslu málsins hafa verið á ábyrgð mannsins og að kærunefnd útlendingamála hefði verið rétt að hafna beiðni hans um endurupptöku málsins. 

Í dómi héraðsdóms segir að það liggi fyrir og sé óumdeilt að heimsfaraldur Covid-19 hafi haft áhrif á framkvæmd flutnings útlendinga frá Íslandi þegar fyrir lá endanleg niðurstaða stjórnvalda þess efnis að umsókn þeirra um alþjóðlega vernd hlyti ekki efnismeðferð hérlendis.

„Á þeim tíma sem um ræðir gerðu fjölmörg ríki, þ.m.t. Grikkland, þangað sem flytja átti stefnanda, kröfu um að framvísað væri neikvæðri niðurstöðu úr sýnatöku eða vottorði um bólusetningu eða mótefni. Var þannig í reynd ekki unnt að koma við flutningi útlendings sem vildi ekki fara sjálfviljugur úr landi nema annað skilyrðið væri uppfyllt. Af gögnum málsins verður ráðið að fallið hafi verið frá þessari kröfu í Grikklandi frá og með 1. maí 2022,“ segir í dómnum. 

Fékk ekki fullnægjandi leiðbeiningar á eigin móðurmáli

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að líta svo á að manninum hefði verið veittar fullnægjandi leiðbeiningar og það á móðurmáli hans sem með sanngirni mætti ætla að hann hefði skilið, eins og kærunefnd útlendingamála lagði til grundvallar niðurstöðu sinni.

„Er það því mat dómsins að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi hans innan 12 mánaða frestsins. Var úrskurður kærunefndar útlendingamála að þessu leyti byggður á efnisannmarka sem telst verulegur,“ segir héraðsdómur sem féllst á kröfu mannsins um að ógilda úrskurð kærunefndar útlendingamála. 

Þá var ríkið dæmt til að greiða manninum 1,2 milljónir kr. í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka