Geta ekki lengur búið við umferðartafirnar

Ný Ölfusárbrú við Selfoss verður 330 metra löng og stöpull …
Ný Ölfusárbrú við Selfoss verður 330 metra löng og stöpull fyrir miðju verður um 60 metra hár, með stögum niður að brúargólfi. Teikining/Vegagerðin

Héraðsnefnd Árnesinga skorar á Alþingi að axla ábyrgð og leysa úr þeim hnökrum sem komið hafa upp vegna fjármögnunar við byggingu á nýrri brú yfir Ölfusá við Selfoss.

Var ályktun þess efnis samþykkt á haustfundi nefndarinnar á Hótel Geysi fyrr í vikunni.

Nefndin er byggðasamlag allra sveitarfélaga í Árnessýslu en þau eru: Árborg, Bláskógabyggð, Flóahreppur, Grímsnes-og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur, Hveragerði, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Ölfus.

Á að greiðast með gjaldtöku

„Héraðsnefnd Árnesinga minnir á að framkvæmdin á að greiðast með gjaldtöku notenda en ekki af fjármunum samgönguáætlunar og því óháð þeirri fjármögnun og forgangsröðun,“ segir í ályktuninni.

„Íbúar Suðurlands ásamt öllum þeim sem leið sína leggja um Selfoss geta ekki öllu lengur búið við umferðatafir þær sem eru meira og minna orðnar viðvarandi um gömlu Ölfusárbrúnna við Selfoss og eru sérstaklega íþyngjandi á álagstímum.“

Viðbragðstími lengist

Í ályktuninni er sértaklega bent á að viðbragðstími viðbragðsaðila lengist umtalsvert við slíkar aðstæður sem sé mjög alvarlegt þegar litið er til öryggis íbúa og vegfarenda.

„Tími áætlunargerða, mati á mögulegum brúarstæðum og legu Hringvegarins er liðinn. Tími framkvæmda er runninn upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert