Dæmdur fyrir nauðgun og ítrekuð kynferðisbrot gegn grunnskólanema

Landsréttur þyngdi dóminn yfir manninum.
Landsréttur þyngdi dóminn yfir manninum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Najeb Mohammad Alhaj Husin, fyrrverandi starfsmaður í grunnskóla á Norðurlandi, var í Landsrétti í gær dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir margítrekuð kynferðisbrot gegn stúlku á barnsaldri sem var nemandi við skólann.

Landsréttur þyngdi þar með dóm yfir manninum en Héraðsdómur Norðurlands eystra hafði áður dæmt hann í þriggja og hálfs árs fangelsi. Við aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti voru spilaðar hljóð-og myndupptökur af skýrslum ákærða og brotaþola fyrir héraðsdómi.

Hafa valdið brotaþola mikilli vanlíðan

Brotin áttu sér stað í nóvember 2021 fram í mars 2022 en Najeb Mohammad Alhaj Husin var þá 29 ára en stúlkan 14 ára. Brotin voru ýmist framin í húsnæði grunnskólans, í bíl sakborningsins eða á heimili hans. Staðfest er í gögnum málsins að þau hafi valdið brotaþola mikilli vanlíðan.

Héraðsdómur Norðurlands eystra sakfelldi manninn fyrir kynferðisbrot gegn barni undir 15 ára aldri en sýknaði hann af ákæru um nauðgun. Landsréttur taldi hins vegar að maðurinn hafi gerst sekur um nauðgun og dæmdi hann til fimm ára fangelsisvistar og hann var að auki dæmdur til að greiða stúlkunni 3,5 milljónir króna í miskabætur og greiða áfrýjunarkostnað málsins, tæpar 2,5 milljónir króna.

Hafði ítrekað samræði og önnur kynferðismök án samþykkis

Ákærða er gefið að sök kynferðisleg áreitni gegn barni með því að hafa í tvígang í húsnæði grunnskólans kysst stúlkuna og káfað á brjóstum hennar og kynfærum utan klæða.

Þá var maðurinn ákærður fyrir nauðgun með því að hafa ítrekað haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkuna án hennar samþykkis og að hafa haft barnaníðsefni í vörslum sínum á tímabilinu frá 18. mars til 8. maí 2022 en um var að ræða ljósmynd sem sýndi stúlkuna á kynferðislegan hátt og var vistuð í síma hins ákærða.

Dómur Landsréttar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert