Forsetaframbjóðendur flykkjast í framboð

Hvaða forsetaframbjóðendur hyggjast bjóða sig fram í komandi Alþingiskosningum?
Hvaða forsetaframbjóðendur hyggjast bjóða sig fram í komandi Alþingiskosningum? Samsett mynd

Fjöldi forsetaframbjóðenda í vor var allmikill eins og flestum er eflaust minnisstætt enda ekki langt um liðið.

Rúmum fjórum mánuðum eftir að hafa háð baráttu um embætti forseta Íslands hafa fjórir af fyrrverandi frambjóðendunum tilkynnt að þeir sækist eftir sæti á lista stjórnmálaflokka í komandi Alþingiskosningum.

Blaðamaður mbl.is sló á þráðinn til fyrrverandi forsetaframbjóðenda sem ekki hafa tilkynnt framboð nú þegar.

Halla Hrund Logadóttir tilkynnti fyrr í dag að hún hygðist leiða Framsóknarflokkinn í Suðurkjördæmi. Þá hefur Jón Gnarr skráð sig í Viðreisn og sækist eftir leiðtogasæti flokksins. Arnar Þór Jónsson hefur stofnað sinn eigin flokk, Lýðræðisflokkinn, og hyggst leiða hann í Suðvesturkjördæmi.

Arnar Þór Jónsson, Jón Gnarr og Halla Hrund Logadóttir.
Arnar Þór Jónsson, Jón Gnarr og Halla Hrund Logadóttir.
Viktor Traustason.
Viktor Traustason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áherslur Pírata eiga best við Viktor

Viktor Traustason tekur þátt í prófkjöri Pírata í Norðausturkjördæmi og kveðst sjálfur hafa skráð sig í flokkinn. Engir flokkar hafi haft samband við sig eftir forsetakosningarnar. 

„Miðað við þau stefnumál sem ég bauð fram í forsetakosningunum þá fannst mér Píratar vera þau stjórnmálasamtök sem samræmast þeim áherslum best,“ segir Viktor.

„Ég held að maður vonist bara til þess að fá eins mörg atkvæði eins og hægt er en ef ekki þá er það ekkert stórmál.“

Ástþór Magnússon, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Katrín Jakobsdóttir.
Ástþór Magnússon, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Samsett mynd

Enginn spurt Katrínu og Steinunni og Ástþór fer ekki fram

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Katrín Jakobsdóttir engan hafa komið að máli við sig um mögulegt framboð.

Innt eftir mögulegu framboði segir Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir enga eftirspurn hafa verið eftir hennar framboði.

Þá kveðst Ástþór Magnússon ekki hafa leitt hugann að framboði enda sjá hann ekki fram á að getað náð árangri í friðarmálunum þar. Kveðst hann vona að Halla Tómasdóttir forseta hafi hugrekki til að hafna að undirskrifa lög sem kveði á um vopnakaup.

Helga Þórisdóttir.
Helga Þórisdóttir. Kristinn Magnússon

Ekki bara með hugann við Persónuvernd

Aðspurð segist Helga Þórisdóttir hafa átt í einhverjum óformlegum samtölum um möguleg framboð en hafi ekki hugað að öðru en forstjórastarfi sínu í bili, enda nóg að gera. Hún hafi þó mikinn áhuga á stjórnmálum.

Þannig þú ert bara með hugann við Persónuvernd?

„Tja, greinilega ekki bara, ég meina ég bauð mig fram til embætti forseta og er búin að sinna mínu starfi í dágóða stund en að sama skapi þá var hugur minn bara einlægur við það embætti.“

Spurð hvort hún væri reiðubúin til að bjóða sig fram bærist boð frá rétta flokknum kveðst Helga alla vega ekki hafa farið fram en að hún hafi þó mikinn áhuga á stjórnmálum.

Ásdís Rán Gunnarsdóttir.
Ásdís Rán Gunnarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásdís gæti verið dregin í flokk

Ásdís Rán Gunnarsdóttir var stödd erlendis er blaðamaður náði tali af henni en sagðist vera á leiðinni til Íslands.

Innt eftir mögulegu framboði sagði Ásdís atburðarás síðustu daga hafa verið svo hraða að henni hafi ekki gefist kostur á að skoða málið enn. Hún útilokar ekki framboð en segir þó enga flokka hafa verið í sambandi við sig enn sem komið er.

„Ég held kannski að ég hafi svolítið misst af þessu tækifæri,“ segir Ásdís.

„Nema að einhver reyni að draga mig inn í einhvern flokk,“ bætir hún við.

Engir flokkar hafi þó komið að máli við sig enn sem komið er en margir hafi spurt hana hvort hún hyggist gefa kost á sér. Aðspurð segir hún engan einn flokk hugnast sér meira en aðra enda margir frambærilegir flokkar sem standi til boða.

Eiríkur Ingi Jóhannsson.
Eiríkur Ingi Jóhannsson. mbl.is/Arnþór Birkisson

Eiríkur íhugar að bjóða sig fram einn

Eiríkur Ingi Jóhannsson kveðst ekki hafa tekið ákvörðun um framboð enda hafi kosningum borið að með skjótum hætti. Hann hafi þó vissulega hafa leitt hugann að því og útiloki það ekki.

„Maður hefur látið á sér bera í forsetaframboði af því mann langar að gera eitthvað fyrir þjóðina. Það varð náttúrulega ekkert úr því og þá er að finna eitthvað sem næst því kemur sem getur haft áhrif. Hvort það verði þingmennska eða eitthvað annað verður bara að koma í ljós.“

Spurður hvort einhverjir flokkar hafi komið að máli við hann kveðst Eiríkur ekki vilja gefa það upp.

Kveðst hann jafnvel sjá fram á að bjóða sig fram sem óflokksbundinn þingmaður. Kosningalög heimili það ekki en hann gæti vel hugsað sér að láta á það reyna fyrir dómi eða á borði umboðsmanns Alþingis.

Ekki náðist í Baldur Þórhallsson við vinnslu þessarar fréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert