Harðari barátta um hvert sæti í Norðvestur

Samsett mynd

Helsta breytingin á framboðslistum í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar er að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hefur flutt sig þaðan yfir í Suðvesturkjördæmi. Þá hefur Bjarni Jónsson, sem var þingmaður VG í kjördæminu, sagt skilið við flokkinn.

Þetta hefur valdið því að barist verður um oddvitasæti á lista Sjálfstæðisflokksins, auk þess sem barátta verður um efstu sætin í Framsóknarflokknum. Enn er óvíst með framboð hjá Samfylkingunni.

Í dag eru þingmenn kjördæmisins átta, þar af tveir jöfnunarþingmenn. Vegna mannfjöldaþróunar færist einn jöfnunarþingmaður frá kjördæminu og verður aðeins einn slíkur í þessum kosningum og heildarfjöldi þingmanna því sjö. Því er ljóst að baráttan um hvert sæti harðnar í þetta skiptið.

Í dag eiga Framsóknarmenn þrjá þingmenn, Sjálfstæðisflokkur tvo þingmenn og Vinstri Græn, Flokkur fólksins og Miðflokkurinn einn þingmann hver flokkur. 

Sjálfstæðisflokkurinn

Teitur Björn Einarsson og Ólafur Adolfsson munu berjast um oddvitasætið í Sjálfstæðisflokknum í Norðvesturkjördæmi í kosningunum eftir að plássið losnaði við brotthvarf Þórdísar Kolbrúnar. 

Teitur Björn og Ólafur.
Teitur Björn og Ólafur. Samsett mynd

G. Sigríður Ágústsdóttir sækist eftir öðru sætinu auk Björns Bjarka Þorsteinssonar, en hann tilkynnti framboðið nú í kvöld. Hann er í dag sveitarstjóri í Dalabyggð. Á meðan sækist Auður Kjartansdóttir eftir því þriðja á lista flokksins.

Fyrirhugað er að kjósa um fyrstu fjögur sætin á kjördæmisþingi í Borgarnesi sunnudaginn 20. október.

Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, hefur tilkynnt um framboð …
Björn Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri í Borgarbyggð, hefur tilkynnt um framboð sitt í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi.

Samfylkingin

Óljóst er hverjir bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í Suðvesturkjördæmi. Uppstilling verður hjá flokknum og er reiknað með því að listinn yfir frambjóðendur verði gerður opinber um miðja næstu viku. Kjördæmisráðsfundur verður síðan haldinn fimmtudaginn 24. október þar sem listinn verður endanlega samþykktur.

Framsóknarflokkurinn

Þingmennirnir Stefán Vagn Stefánsson, Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Halla Signý Kristjánsdóttir sækjast öll eftir sætum ofarlega á framboðslista Framsóknarflokksins. Kjördæmaþing verður haldið á morgun, laugardag, þar sem lögð verður fram tillaga um uppstillingu. Viku síðar, 26. október, er stefnt á að kynna listann á aukakjördæmaþingi.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Viðreisn

María Rut Kristinsdóttir hefur hug á því að leiða lista Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Uppstilling verður hjá flokknum og er reiknað með því að uppstillinganefndir ljúki störfum í næstu viku.

Miðflokkurinn

Bergþór Ólason, annar tveggja þingmanna Miðflokksins, gefur áfram kost á sér til þingsetu. Uppstillingarnefnd flokksins er annars að störfum og kemur það líklega í ljós á morgun hverjir verða á listanum.

Bergþór Ólason.
Bergþór Ólason. mbl.is/Brynjólfur Löve

Flokkur fólksins

Eyjólfur Ármannsson sækist eftir efsta sæti Flokks fólksins. Reiknað er með því að stjórn flokksins ákveði á næstu dögum hverjir skipa helstu sæti á listanum.

Píratar

Prófkjör verður hjá Pírötum og hefjast kosningar 20. október. Þeim lýkur tveimur dögum síðar en sex eru í framboði í kjördæminu.

Eyjólfur Ármannsson.
Eyjólfur Ármannsson.

VG, Sósílistar og Lýðræðisflokkurinn

Upp­still­ing verður hjá Sósí­al­ista­flokkn­um og list­ar verða kynnt­ir fyr­ir 30. októ­ber. Einnig verður uppstilling hjá Vinstri grænum, en ekki náðist í formann kjördæmaráðs flokksins við vinnslu fréttarinnar. 

Uppstilling verður hjá Lýðræðisflokknum og gert er ráð fyrir að tilkynnt verði um efstu menn á morgun, laugardag.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka