Hvernig verða listarnir í Reykjavík?

Það stefnir í að mikill fjöldi sömu leikenda verði á …
Það stefnir í að mikill fjöldi sömu leikenda verði á framboðslistum í Reykjavík og var í síðustu kosningum. Þó eru nokkur ný andlit að finna inn á milli. Samsett mynd

Flestir sitjandi þingmenn í Reykjavíkurkjördæmunum norður og suður sækast eftir því að vera ofarlega á lista fyrir þingkosningar sem verða 30. nóvember næstkomandi. Hér í fréttinni er samantekt á framboðunum hjá flokkunum í kjördæminu.

Tveir þingmenn úr kjördæmunum hafa ákveðið að bjóða sig ekki fram. Steinunn Þóra Árnadóttir frá Vinstri grænum og Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir frá Pírötum.

Reykjavíkurkjördæmi suður hefur 11 sæti á Alþingi og þar af tvö jöfnunarsæti. Sjálfstæðisflokkurinn er með þrjá þingmenn, Vinstri grænir og Píratar tvo og og Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Flokkur fólksins og Viðreisn er með einn þingmann hver flokkur.

Reykjavíkurkjördæmi norður hefur 11 sæti á Alþingi og þar af tvö jöfnunarsæti. Sjálfstæðisflokkurinn, Vinstri grænir, Samfylkingin og Píratar eru með tvo þingmenn hver flokkur og Framsóknarflokkurinn, Flokkur fólksins og Viðreisn einn þingmann hver flokkur.

Viðreisn

Öll landshlutaráð Viðreisnar hafa ákveðið að það verði uppstilling á listum Viðreisnar fyrir komandi alþingiskosningar. Hanna Katrín Friðriksson, Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Jón Gnarr verða í baráttu um efstu sætin.

Diljá Ámundardóttir Zoëga, fyrrverandi varaborgarfulltrú, sækist eftir öðru sæti í öðru hvoru kjördæminu.

Þá upplýsti Pawel Bartoszek, fyrrverandi borgarfulltrúi Viðreisnar, að hann hafi lýst því yfir við uppstillingarnefnd Viðreisnar að hann hafi áhuga á að taka sæti á lista flokksins fyrir komandi Alþingiskosningar.

Jón Gnarr gekk nýlega til liðs við Viðreisn.
Jón Gnarr gekk nýlega til liðs við Viðreisn. mbl.is/María Matthíasdóttir

Píratar

Kynningar frambjóð fara fram um helgina og á sunnudaginn hefjast kosningar sem lýkur á þriðjudaginn. Halldóra Mogensen sækist eftir að leiða listann í Reykjavík norður. Andrés Ingi Jónsson vill leiða lista í öðru hvoru kjördæminu sem og Björn Levý Gunnarsson í Reykjavík suður.

Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi tilkynnti í dag að hún gefi kost á sér til forystu Pírata á Alþingi og bjóði sig fram í Reykjavík, en áður hafði Arndís Anna Kristínardóttir, sem kjörin var á þing 2021, ákveðið að gefa ekki kost á sér.

Dóra Björt Guðjónsdóttir tilkynnti í dag að hún myndi bjóða …
Dóra Björt Guðjónsdóttir tilkynnti í dag að hún myndi bjóða sig fram fyrir Pírata. mbl.is/María Matthíasdóttir

Vinstri græn

Uppstilling verður í öllum kjördæmum og stefnt að því að listinn yfir frambjóðendur í Reykjavíkurkjördæmunum verði klár í næstu viku. Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna og fyrrverandi ráðherra, og Orri Páll Jóhannsson, formaður þingflokksins, óska þar eftir því að verða í efstu sætum.

Svandís Svavarsdóttir er formaður Vinstri grænna.
Svandís Svavarsdóttir er formaður Vinstri grænna. mbl.is/Karítas

Flokkur fólksins

Það verður uppstilling á listana sem verður væntanlega klár í næstu viku. Formaðurinn Inga Sæland og aldursforsetinn á Alþingi, Tómas A. Tómasson, sem bæði eru sitjandi þingmenn bjóða sig fram áfram í efstu sætin.

Tómas A. Tómasson aldursforseti á Alþingi.
Tómas A. Tómasson aldursforseti á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sjálfstæðisflokkur

Kjörnefnd situr að störfum og ætlar að stilla upp tveimur heilstæðum listum sem verða svo bornir fyrir kjördæmisþing til samþykktar eða synjunar. Niðurstaða ætti að liggja fyrir í byrjun næstu viku. Ráðherrarnir Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir bjóða sig fram í efsta sæti í sitt hvoru kjördæminu.

Þingflokksformaðurinn Hildur Sverrisdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir gefa kost á sér í annað sætið og Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, í það þriðja.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gefur kost á sér í efsta sæti.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir gefur kost á sér í efsta sæti. mbl.is/Karítas

Samfylking

Ákveðið var í gær að fara í uppstillingu og stefnt er að því að kynna listana fyrir næstu helgi. Formaðurinn Kristrún Frostadóttir og Jóhann Páll Jóhannsson, sitjandi þingmenn, munu væntanlega leiða listana.

Dagbjört Hákonardóttir sem tók sæti á Alþingi í hyggst bjóða sig fram og þá tilkynnti Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, í dag að hann sækist eftir öðru sæti. Þá hefur Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, verið nefndur til sögunnar.

Jón Magnús Kristjánsson, fyrrverandi yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, mun óska eftir þriðja til fjórða sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu.

Þórður Snær Júlíusson, fyrrverandi ritstjóri Heimildinnar, tilkynnti fyrir nokkru að hann hefði skráð sig í Samfylkinguna og ætlaði að taka þátt í starfi flokksins. Ekkert hefur þó komið fram um hvort hann ætli fram í kosningunum.

Kristján Þórður Snæbjarnarson tilkynnti um framboð sitt í dag fyrir …
Kristján Þórður Snæbjarnarson tilkynnti um framboð sitt í dag fyrir Samfylkinguna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sósíalistaflokkurinn

Uppstillinganefnd mun skila inn listum fyrir 30. nóvember en ljóst er að Sanna Magdalena Mörtudóttir, sem setið hefur í borgarstjórn fyrir flokkinn, verður í framboði fyrir flokkinn. 

Sanna Magdalena Mörtudóttir stefnir á þing en hún hefur setið …
Sanna Magdalena Mörtudóttir stefnir á þing en hún hefur setið í borgarstjórn undanfarin ár. mbl.isEggert Jóhannesson

Miðflokkurinn

Uppstillinganefnd vinnur hörðum höndum að koma saman listum þar sem formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er með í ráðum að raða fólki inn á lista í efstu sætin. Vonir standa til að listarnir fyrir Reykjavíkurkjördæmin verði klárir fljótlega í næstu viku.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framsókn

Það verður uppstilling hjá Framsóknarflokknum en ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason og Lilja Dögg Alfreðsdóttir munu væntanlega leiða listana, Ásmundur í Reykjavík norður og Lilja í Reykjavík suður.

Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. mbl.is/Karítas
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert