Ragnhildur tekur slaginn í Suðvestur

Þrír sækjast eftir fjórða sætinu.
Þrír sækjast eftir fjórða sætinu. Ljósmynd/Aðsend

Ragnhildur Jónsdóttir, hagfræðingur og forseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi, býður sig fram í fjórða sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ragnhildi. 

Nú þegar hefur Sigríður Ármann, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, gefið kost á sér í fjórða sæti á lista flokksins í kjördæminu. Auk þess gefur Vilhjálmur Birgisson kost á sér í öðru til fjórða sæti á lista flokksins í kjördæminu.

Heilbrigðis-, mennta- og efnahagsmál í fogrunni

Ragnhildur er forseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi og situr auk þess í bæjarráði. Hún var varabæjarfulltrúi á síðasta kjörtímabili og formaður skipulags- og umferðarnefndar. Á þessum árum var hún einnig varaformaður skólanefndar. 

Ragnhildur hefur einnig starfað í banka við efnahagsgreiningu og eignastýringu og í rannsókna- og spádeild Seðlabanka Íslands. Síðustu ár hefur hún tekið þátt í að byggja upp nýsköpunarfyrirtæki í heilbrigðistækni, Sidekick Health. 

„Áherslumál mín eru heilbrigðismál, menntamál og hagstjórn í samræmi við áherslur flokksins. Öflugt efnahagslíf, hófleg ríkisútgjöld og lágir skattar eiga að vera meginmarkmið flokksins þar sem mestu skiptir að leyfa frelsi einstaklinga, sveigjanlegum rekstrarformum og atvinnulífi að blómstra og skapa þannig sterkari grunn fyrir velferð fólks í landinu,“ segir Ragnhildur í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert