Spurningar keyptar til að kanna áhuga á Degi

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn og formaður borgarráðs. …
Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn og formaður borgarráðs. Hann ásamt fleiri stjórnmálamönnum sótti þing ASÍ í dag. mbl.is/Karítas

Óvíst er hvort Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri og núverandi formaður borgarráðs, bjóði sig fram fyrir næstu alþingiskosningar fyrir hönd Samfylkingar. Sjálfur sagði hann í samtali við mbl.is í vikunni að hann útiloki ekki framboð og sagði það í ferli innan þingflokks Samfylkingar.

Hvað sem því líður virðist sem áhöld séu um það hvort rétt sé að tefla Degi fram í kosningunum. Til að glöggva sig á stöðunni hafa verið keyptar spurningar í spurningavagni hjá könnunarfyrirtækinu Prósent til þess að kanna áhuga á framboði Dags til alþingiskosninga og þá með fyrir sjónum að athuga hvort svarendur séu jákvæðir fyrir því eða ekki.

Í spurningavagninum er einnig kannaður áhugi á ýmsum vörumerkjum auk afstöðu fólks til alþingiskosninga svo dæmi séu nefnd.

Niðurstaðan eingöngu fyrir þann sem kaupir 

Hvað Dag varðar snýr spurning annars vegar að því hversu jákvæðir eða neikvæðir svarendur eru gagnvart því að hann verði í 1. sæti á lista Samfylkingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna fyrir næstu Alþingiskosningar.

En hins vegar hversu jákvæðir eða neikvæðir þeir eru gagnvart því að hann fari fram í 1., 2. eða 3. sæti í Reykjavík norður eða Reykjavík suður í komandi kosningum.

Taka ber fram að slíkar spurningar geta eingöngu verið í þágu þess sem kaupir og niðurstaða úr þeim birtist almenningi ekki nema vilji sé á því hjá kaupanda. 

Ekki keyptar af Samfylkingunni 

Guðmundur Ari Sigurjónsson, formaður framkvæmdastjórnar hjá Samfylkingunni, segir að spurningarnar hafi ekki verið keyptar af þingflokki Samfylkingar og að hann þekki ekki hver gerði það.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert