Starfsfólk Heilsugæslu miðbæjarins hefur fengið nýjan aðstoðarmann til sín sem svarar skilaboðum sjúklinga í Heilsuveru. Þessi „starfsmaður í þjálfun“ er reyndar enginn maður, heldur gervigreindarlíkan.
„Við erum búin að búa til kerfi sem notar mállíkan til að lesa skilaboð sjúklinga og myndar sjálft allt sem þarf til að leysa verkefnið eins hratt og hægt er,“ segir Steindór Ellertsson í samtali við mbl.is en hann er sérnámslæknir í heimilislækningum, doktorsnemi og framkvæmdastjóri Careflux, sem stendur nú að tveimur gervigreindarverkefnum sem gætu gjörbreytt starfsumhverfi heimilislækna.
Verkefnið sem Steindór er að tala um er sum sé gervigreindarlíkan sem ritar tillögur að svörum við skilaboðum sjúklinga á Heilsuveru. Hitt verkefnið er aðeins flóknara og snýr að greiningu öndunarfærasjúkdóma í gegnum netspjall. Það þurfa þó að líða nokkur ár þar til sú tækni er tilbúin til notkunar.
Steindór segir að þessi tækni geti verulega dregið úr því skjalavafstri og skriffinnsku sem læknar þurfa að sinna á hverjum degi.
Starfsfólk á heilsugæslu Miðbæjarins er fyrst til að prófa þessa nýju tækni sem enn er verið að þjálfa. Steindór segir að tæknin verði einnig notuð á öðrum heilsugæslustöðum og meðal annars sé fyrirtækið í viðræðum við erlend fyrirtæki, m.a. í Skandinavíu og Kanada.
„Spjallmenni“ væri reyndar rangnefni að mati Steindórs, sem vill frekar kalla hugbúnaðinn „skilaboðastoð“. Líkanið sjálft er nefnilega ekki eitt við stýrið í samskiptum starfsmanns og sjúklings. Það kemur bara með uppástungur að skilaboðum sem starfsmaður þarf að staðfesta.
Um leið og sjúklingur sendir skilaboð á Heilsuveru fara þau í gegnum mállíkanið, sem flokkar skilaboðin og býr til svartillögur og skjöl. Heilbrigðisstarfsmaðurinn getur síðan breytt og bætt við skilaboðin, áður en hann sendir þau.
Strangari reglugerðir gilda vissulega um sjálfvirk spjallmenni. „En það sem við getum farið að gera er að safna gögnum til að rökstyðja að ákveðnir hlutir geti orðið sjálfvirkir,“ segir hann.
„Þetta er bara svona fyrsta skref.“
„Þetta er að spara um 52% af tímanum sem er að fara í þetta verkefni [að spjalla við sjúklinga á Heilsuveru],“ segir Steindór.
Steindór telur það „alveg pottþétt“ að slík tækni muni minnka álag á heilbrigðisstarfsfólk. Hann nefnir að þetta gæti forðað heilbrigðisstarfsfólki frá kulnun þar sem rannsóknir sýni að fólk sem á mörg ósvöruð skilaboð í pósthólfi sé líklegra til að upplifa kulnun í starfi.
Kulnun er ekki óalgeng meðal heilbrigðisstarfsfólks. Samkvæmt könnun sem Landspítalinn framkvæmdi árið 2022 upplifir rúmlega fjórðungur starfsfólks spítalans kulnun oft eða mjög oft. Gervigreindin gæti því forðað fólki frá kulnun.
„Fólk er rosalega ánægt með þetta í prófunum,“ segir hann.
„Gervigreind er aðeins öðruvísi en hefðbundinn hugbúnaður. Maður þarf að kenna fólki að nota hana. Til dæmis gæti hún haft rangt fyrir sér,“ segir hann.
Þá er fyrirtækið með annað gervigreindarverkefni í vinnslu sem snýr að forflokkun sjúklinga með öndunarfæraeinkenni. Sjúklingar svarar þá spurningum um einkenni sín og gervigreindin flokkar þá í áhættuflokka.
Tæknin hefur enn ekki verið tekin í notkun, og verður það í besta falli eftir fjögur ár að sögn Steindórs þar sem enn er verið að rannsaka hvort líkanið sé öruggt og áreiðanlegt. Niðurstöður fyrstu rannsóknarinnar voru kynntar á Heimilislæknaþingi á fimmtudag.
„Þær voru mjög lofandi,“ segir Steindór um niðurstöðurnar. Gervigreindinni hafi tekist að flokka alla 200 sjúklinga í rannsókninni í rétta hópa eftir alvarleika einkenna. Og þetta tókst henni bara með því að spyrja spurninga. „Allir sjúklingar sem voru með mjög alvarlegar útkomur voru rétt flokkaðir í háa áhættuflokka á meðan sjúklingar með væg einkenni lentu flestir í lægri áhættuflokkum.“
Þannig væri hægt að finna fólk sem þarf í raun ekki að leita á heilsugæslu áður en það kemur og beina þeim annað. Þá myndi tæknin einnig spara heilsugæslunum mikinn pening og Steindórsegir að öndunarfæraeinkenni séu stærsta umkvörtunarefni heilsugæslna. „Þetta eru um fimm prósent sjúklinga,“ segir hann.
Gervigreindin gæti einnig fækkað sýklalyfjaávísunum en Steindór segir að allt að 50% sýklalyfja ávísana séu óþarfi samkvæmt rannsóknum. „Þetta er næstum því að vera með aðstoðarmann þér við hlið sem er með öll vísindin á hreinu, gefur þér aukið öryggi. Kannski sleppa þessum sýklalyfja skammti sem maður hefði annars skrifað.“
Þá sér Steindór einnig fram á að tæknin gæti verið notuð til að greina bakverki og höfuðverki. „Ég hugsa að það sé hægt að innleiða þetta alls staðar þar sem hlutfall fólks sem þarf ekki að koma á heilsugæsluna er hátt.“
Steindór trúir því að tæknin gæti „alveg klárlega“ nýst erlendis líka en rannsóknarferillinn hér er lengri, þar sem þessi tiltekna tækni er skilgreind sem lækningatæki.
En hver eru þá næstu skref? Skilaboðastoðin þarf að safna fleiri gögnum, en það gerist í raun sjálfkrafa þegar skilaboð eru send inn í gegnum Heilsuveru. En það gerist í raun sjálfkrafa. Líkanið sjálft er þjálfað á um sex þúsund skilaboðum, en það safnar síðan jafnóðum þeim ríflega þúsund skilaboðum sem það fær á dag.
„Fyrir þetta verkfæri þarf bara meira af þjálfunargögnum og það mun gerast tiltölulega hratt held ég.“
Og hvað þarf að gera svo að bæta við hitt líkanið, sem greinir öndunarfærasjúkdóma, verði tekið í notkun? Stutta svarið er stærri rannsókn. „Við þurfum að fá stærra rannsóknarþýði og við eigum í smá viðræðum við aðila innanlands til að keyra það áfram.“
En eru þær upplýsingar sem mállíkanið vinnur um sjúklinga í öruggum höndum?
Steindór segir að svo sé. Hann nefnir að mállíkanið sé ekki tengt við neina þjónustu aðra en sjúkraskrárkerfið. Þetta er allt á „lókal“ netþjónum eins og Steindór orðar það.
„Það fer ekki neitt,“ segir læknirinn. „Þetta eru allt líkön sem eru þróuð frá grunni og geta keyrt ónettengd ef þess þarf. Þannig að öryggið er bara eins og í sjúkraskrá, eins og staðan er í dag.“
Gervigreindin getur gert ansi mikið í heilbrigðisgeiranum, segir Steindór, sem nefnir að um 60-70% af sínum vinnudegi fari í pappírsvinnu og stjórnunarvinnu.
„Fyrir hvern klukkutíma sem ég hitti sjúkling þá eyði ég tveimur klukkutímum í pappír. Rannsóknir eru að sýna að gervigreindarlíkön eru að ná allt að 80-90% tímasparnaði í þessum verkefnum. Það þarf ekki flókna útreikninga til að sýna hversu gríðarleg áhrif þetta getur haft.“
Læknirinn bendir þá á að öll heilbrigðiskerfi séu undirmönnuð.
„Manneskjan er góð í því sem hún gerir, en ef það er of mikil vinna og of mikið álag, og ef maður hefur ekki tíma til að skoða allt í þá þaula sem maður myndi vilja, þá er líklegra að maður meðhöndli fólk rangt og geri villur. Að fá inn gervigreind á þessi svið þar sem þarf smá hjálp til að gera þjónustuna gæðameiri, ég held að það muni skipta rosalega miklu máli,“ segir Steindór og bætir við að lokum:
„Ég er gríðarlega bjartsýnn á næstu tíu ár að sjá þvílíka breytingu á vinnuumhverfi heilbrigðisstarfsfólks.“