Sex börn hafa verið lögð inn á Barnaspítalann vegna E.coli-smits sem kom upp í leikskólanum Mánagarði í Reykjavík.
Greint var frá því á mbl.is í nótt að fjögur börn lægju inni á spítala vegna þessa en nú hafa tvö bæst við.
Þetta kemur fram í svari Landspítala við fyrirspurn mbl.is. Þá eru fleiri börn sem greinst hafa með bakteríusýkinguna en ekki hefur þurft að leggja þau inn á spítalann.
Leikskólanum hefur verið lokað vegna sýkinganna. Ekki náðist í skólastjórnendur á Mánagarði til að kanna hvort starfsmenn hefðu veikst. Skólinn er rekinn af Félagsstofnun stúdenta.
Hjá Landspítalanum fengust þær upplýsingar að enginn starfsmaður hefði verið lagður inn á spítala.