Börnum undir virku eftirliti Landspítalans vegna E.coli-sýkingar hefur fjölgað og eru þau núna 37 talsins.
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum er um að ræða virkt smit en eru börnin engu að síður heima þar sem þau eru svo undir eftirliti lækna og hjúkrunarfræðinga.
Þá hefur innilögðum börnum einnig fjölgað og eru þau eru nú sex talsins. Fjögur þeirra eru inniliggjandi á Barnaspítala Hringsins en tvö á gjörgæslu.
Engin önnur börn utan leikskólans Mánagarðs hafa smitast, en þar kom fyrsta smitið upp þriðjudaginn 22. október.
Upptök sýkingarinnar eru nú til rannsóknar. Greint var frá því í gær að niðurstöður gætu legið fyrir í næstu viku.