Óskar Bergsson
„Börnin sem eru á gjörgæslu eru alvarlega veik og alvarlegasti fylgikvilli svona sýkingar er nýrnabilun sem er sérstaklega hættuleg ungum börnum. Reikna má með að 6-10% þeirra sem sýkjast lendi í því,“ segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir.
Í gær voru tvö börn inniliggjandi á gjörgæslu sem veiktust af E.coli-bakteríu á leikskólanum Mánagarði. Önnur tvö börn liggja inni á Barnaspítalanum, en þar er starfandi heilsugáttarhópur til að halda utan um eftirlit á tæplega 30 börnum sem hafa greinst með smit.
Smitin sem greinst hafa fram að þessu tengjast leikskólanum. Aukaleg mönnun hjúkrunarfræðinga verður á bráðamóttöku barna og göngudeild um helgina, til að sinna eftirliti barna sem eru heima.
Guðrún segir að heilbrigðiseftirlitið og embætti sóttvarnalæknis vinni að rannsókn til að komast að uppruna sýkingarinnar.
„Sýkingin er ekki útbreidd og aðeins tengd þessum eina leikskóla. Þetta er ákveðin sýking sem við vitum hver er og frekari rannsókn er í gangi. Við höfum talað við fjölskyldur barnanna, heilbrigðiseftirlitið hefur farið á staðinn og gert úttekt þar. Það er fjöldi fólks að vinna úr sýnum og þetta tekur allt sinn tíma.“
Spítalinn sinnir eftirliti með börnunum sem eru heima. Góðu fréttirnar eru að sum barnanna hafa verið útskrifuð heim.
Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.